Samkeppnishæfni íslenskrar kísilmálmframleiðslu versnar
„Gögnin sýna svo ekki verður um villst að samkeppnishæfni íslenskrar kísilmálmframleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum er að versna. Framleiðslan hér á landi er í alþjóðlegri samkeppni við framleiðendur í öðrum löndum sem búa við mun betri rekstrarskilyrði. Íslensku fyrirtækin eru að keppa við fyrirtæki sem jafnvel njóta opinbers stuðnings eða ívilnana. Þess má geta að flutningskostnaður raforku hefur hækkað verulega hér á landi, sem skekkir samkeppnisstöðuna enn frekar,” segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í Morgunblaðinu um nýjar upplýsingar frá SI um kísiliðnað á Íslandi þar sem kemur meðal annars fram að útflutningstekjur kísiliðnaðar á Íslandi námu 40,2 milljörðum króna árið 2024 og hafi tvöfaldast á fimm árum. Þar kemur einnig fram að samkeppnishæfni íslenskrar kísilmálmframleiðslu gagnvart erlendum framleiðendum hafi verið að versna.
Hraða þarf vinnu við mótun iðnaðarstefnu - samkeppnishæfni Íslands er undir
Í frétt Morgunblaðsins segir Sigurður að stjórnvöld ríkja í kringum okkur séu að horfa til þess hvernig hægt sé að efla samkeppnishæfni þannig að fyrirtækjum sé gert kleift að skapa sem mest verðmæti. „Ef við fylgjum ekki þeirri þróun er mikil hætta á að við drögumst aftur úr. Við höfum fagnað því að ríkisstjórnin hafi boðað mótun iðnaðarstefnu, sem við teljum gríðarlega mikilvægt skref í átt að því að nýta öll þau mörgu tækifæri sem liggja um allt land. Það er vel til þess vinnandi að hraða slíkri vinnu til að auka verðmætasköpun og halda atvinnustigi uppi. Nú þegar töluverðar breytingar eru að verða á viðskiptaháttum milli landa verður þetta verkefni enn mikilvægara. Samkeppnishæfni Íslands er undir.“
Morgunblaðið / mbl.is, 17. maí 2025.