Fréttasafn13. jún. 2018 Almennar fréttir

Samkeppnishæfni minnkar náist ekki góð sátt í kjarasamningum

Í Fréttablaðinu í dag er fjallað um að undanfarna mánuði hafi hagkerfið sýnt þess merki að farið sé að hægja á tannhjólum þess og ný könnun sýni að stjórnendur stærstu fyrirtækjanna séu svartsýnni nú en nokkru sinni. Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir að náist ekki góð sátt í samningaviðræðunum sé viðbúið að samkeppnishæfni muni minnka sem leiði síðan til aukinnar verðbólgu og því afar mikilvægt að vel takist til við gerð kjarasamninga. „Þetta staðfestir það sem við höfum skynjað í samtölum við félagsmenn okkar undanfarna mánuði. Upp á síðkastið höfum við reglulega fengið fréttir af því að fyrirtæki séu að draga saman seglin og jafnvel loka starfsstöðvum til að bregðast við raungenginu og stöðunni á vinnumarkaði.“ 

Lítið sem ekkert svigrúm til að hækka laun og SALEK mistekist alfarið

Sigurður segir lítið sem ekkert svigrúm sé til að hækka laun. Hann segir það velta mikið á væntingum launþega og aðgerðum stjórnvalda hvernig muni fara og segir jafnframt að tilraunir undanfarinna ára, til að mynda SALEK-samkomulagið, hafi mistekist alfarið. „Þó að kaupmáttur hafi aukist umtalsvert þá hefur húsnæðiskostnaður, sérstaklega þeirra sem lægstu launin hafa, aukist talsvert meira. Það verður að finna lausn á því,“ segir Sigurður í Fréttablaðinu. 

Fréttablaðið / Frettabladid.is, 13. júní 2018.