Fréttasafn28. nóv. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk Mannvirki

Samkeppnishæfni Reykjavíkur rædd á fundi í Höfða

Borgarstjóri og forseti borgarstjórnar stóðu fyrir fundi í Höfða þar sem komu saman fulltrúar Reykjavíkurborgar, atvinnulífs, háskóla, klasa og verkalýðsfélaga og ræddu hvernig efla mætti alþjóðlega samkeppnishæfni Reykjavíkur og skapa borg þar sem nýsköpun þrífst. Niðurstöður fundarins sem nefndur var atvinnulífsfundur eru að móta þurfi sameiginlega framtíðarsýn, setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu og efla stuðning við nýsköpun.

Á vef Reykjavíkurborgar kemur fram að atvinnulífsfundur sé liður í atvinnu- og nýsköpunarstefnu Reykjavíkurborgar, Nýsköpun alls staðar, sem snúi að því að skapa sameiginlega framtíðarsýn milli borgar og atvinnulífs um áskoranir og markmið. Á fundinum voru 36 þátttakendur undir fundarstjórn Guðfinnu Bjarnadóttur um þá þætti sem þyrfti að huga sérstaklega að til að skapa sannkallaða nýsköpunarborg. Gestir voru beðnir að forgangsraða verkefnum tengdum samkeppnishæfni úr atvinnu- og nýsköpunarstefnu og völdu þeir að leggja mesta áherslu á að setja aukinn kraft í innviðauppbyggingu, setja fram sameiginlega og skýra framtíðarsýn, auka stuðning við nýsköpun og efla klasasamstarf.

Meðal þeirra sem sátu fundinn var Jónína Guðmundsdóttir, forstjóri Coripharma, sem situr í stjórn SI. Hún er þriðja frá vinstri á myndinni hér fyrir ofan.