Samkeppnishæfni sett í algjöran forgang á óvissutímum
Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í samtali við Alexander Kristjánsson í Speglinum á RÚV, um hækkun bandarískra stjórnvalda á tollum á innflutning frá Íslandi úr 10% í 15%. Sigurður segir að hækkunin hafi komið mjög á óvart. „Og verður að segjast eins og er að þetta eru mikil vonbrigði fyrir okkur vegna þess að þarna erum við þá að njóta verri viðskiptakjara en áður og það er auðvitað þannig að verri viðskiptakjör eru einfaldlega ávísun á lakari lífskjör.“
Þegar Sigurður er spurður hvort ástæða sé til þess að hafa áhyggjur af því að það brjótist út einhvers konar allsherjar tollastríð svarar hann: „Já, það svo sem er í gangi ef að maður segir það, þannig að ríki heims eru að meta stöðuna og bregðast við hvert á sinn hátt og þetta eru slæmar fréttir fyrir okkur vegna þess að við auðvitað byggjum okkar lífskjör á því að framleiða verðmæti og selja á erlendum markaði. Þannig að greiður aðgangur að erlendum mörkuðum er algjörlega nauðsynlegur fyrir okkur. “ Sigurður segir jafnframt að fyrirtæki séu án efa að meta stöðuna hvort fyrirtæki leiti á aðra markaði en vegna óvissunnar þá sé mjög erfitt fyrir alla í rauninni að taka ákvarðanir í þessari stöðu. „Þannig að þó að fyrirtækin hafi sannarlega verið að skoða og meta sína kosti þá held ég að þau hafi ekki tekið ákvarðanir enn sem komið er varðandi þessi mál eða annað, til dæmis eins og aðfangakerfið og fleira. En þetta er góð áminning um það að við verðum að setja samkeppnishæfni í algjöran forgang á óvissutímum. Það hafa stjórnvöld í nágrannaríkjunum gert og það þurfa íslensk stjórnvöld einnig að gera. Það er gert með því að gæta hagsmuna Íslands erlendis, sem stjórnvöld hafa gert vel, og einnig með því að ryðja heimatilbúnum hindrunum úr vegi.“ Þegar Sigurður er spurður hvort honum finnist í ljósi stöðunnar að stjórnvöld ættu mögulega að líta inn á við og auðvelda rekstrarumhverfi fyrirtækja svarar hann. „Að sjálfsögðu. Ég meina, það er það sem stjórnvöld eru að gera í öllum ríkjunum í kringum okkur og það þarf að vera forgangsverkefni stjórnvalda á Íslandi á þessum krefjandi tímum þegar óveðursskýin geisa og vofa yfir okkur á alþjóðamörkuðum.“
RÚV, 1. ágúst 2025.