Fréttasafn



23. sep. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Málarameistarafélagið

Samnorrænn fundur málarameistara í Osló

Málarameistarafélög allra Norðurlanda komu saman til NMO-fundar í Osló um síðustu helgi og þar á meðal var íslenska Málarameistarafélagið. Kristján Aðalsteinsson, formaður Málarameistarafélagsins, var kosinn forseti NMO til næstu tveggja ára. Á myndinni hér fyrir ofan sést Kristján taka við fundarhamri því til staðfestingar.

Hægist á framkvæmdum á hinum Norðurlöndunum

Á fundinum ræddu stjórnarmenn allra málarameistarafélaganna starfsumhverfið í sínu heimalandi út frá sjónarhóli málaraiðnar. Í máli fulltrúa annarra Norðurlanda en Íslands kom einna helst fram að það er tekið að hægja á öllu. Málarafyrirtæki eru að horfa til fækkunar starfsmanna, hækkandi orkuverð er að gera fyrirtækjum erfitt fyrir að halda starfsemi gangandi sem leiðir m.a. til þess að vinna málara minnkar. Einnig kom fram að margir byggingarverktakar hafa ákveðið að halda að sér höndum, jafnvel hætta við framkvæmdir vegna gríðarlegra hækkana á öllu efni til mannvirkjagerðar. Þrátt fyrir þetta ástand voru fundarmenn allir á því að mikilvægt væri að halda þessu samtali áfram milli Norðurlandanna því það eru ávallt einhver atriði sem reynast vel í einu landi og full ástæða fyrir hin að taka upp í sínu heimalandi.

Ungsveinar keppa í málaraiðn

Í Osló var auk fundarhalda efnt til keppni ungsveina í málaraiðn sem höfðu þrjá daga til að ljúka fyrirfram ákveðnum verkefnum. Það var samdóma álit allra sem að keppninni komu að öll verkefnin hafi verið einstaklega vel unnin og í raun allir keppendurnir fimm sigurvegarar þó einn hafi verið krýndur sigurvegari sem var keppandinn frá Danmörku, Kille Falkensten. Það var Guðrún Blöndal, 22 ára sveinn í málaraiðn, sem keppti fyrir hönd Íslands. Stjórn Málarameistarafélagsins telur að  Guðrún hafi leyst verkefni sitt vel af hendi og jafnvel betur en margir sem lengi hafi starfað í iðngreininni hefðu gert. Þjálfari hennar, Lóa Katrín P. Biering, var með henni í keppninni sem leiðbeinandi en þess má geta að Lóa er að kenna málun í Tækniskólanum. 

20220916_092629

Íslensku málarameistararnir á fundinum í Osló.

Image-4Ungsveinar í málaraiðn sem tóku þátt í keppninni hlutu öll viðurkenningar. Guðrún Blöndal er lengst til hægri á myndinni.

20220916_152308

Kristjan-5-002-

Kristjan-3-002-

Kristjan-2-002-