Samstarf atvinnulífs og stjórnvalda að sækja tækifærin
Framundan er mikið uppbyggingarskeið á Íslandi ef rétt er á málum haldið. Verðmætasköpun eykst með auknum útflutningi sem byggir annars vegar á hugviti og á fjölbreyttum orkusæknum iðnaði, innviðir landsins verða efldir og íbúðir byggðar til að mæta húsnæðisþörf almennings. Þessi tækifæri blasa við okkur en þau þarf að sækja. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, í grein sinni í Frjálsri verslun - 300 stærstu með yfirskriftinni Sækjum tækifæri okkar tíma. Hann segir það vera samstarfsverkefni atvinnulífs og stjórnvalda og gerist ekki nema sýn stjórnvalda í þessa veru sé skýr. Stjórnvöld verði einnig að stuðla að aukinni samkeppnishæfni Íslands með umbótum í menntun, innviðum, nýsköpun og starfsumhverfi fyrirtækja.
Þá segir Sigurður í greininni að með því að vera vakandi fyrir nýjum tækifærum og með skýrri sýn hvetji stjórnvöld til atvinnuuppbyggingar og erlendrar fjárfestingar án þess þó að gera upp á milli atvinnugreina. Stjórnvöld í öðrum ríkjum séu virkir þátttakendur í að sækja tækifærin og íslensk stjórnvöld ættu að gera slíkt hið sama. Stjórnvöld á sjöunda áratug síðustu aldar hafi gert þetta þegar tækifæri þess tíma voru sótt. Nú þurfi að sækja tækifæri okkar tíma sem liggi í hugverkaiðnaði og öðrum iðnaði sem tengist uppbyggingu innviða, hröðum tækniframförum og loftslagsmálum. Hann segir framtíð okkar ráðast af því hvernig okkur takist að virkja hugvitið – okkar verðmætustu auðlind.
Í hugverkaiðnaði eru raunveruleg tækifæri fyrir Ísland
Í greininni kemur fram að hugverkaiðnaður sé orðinn fjórða stoð gjaldeyrisöflunar íslenska þjóðarbúsins til viðbótar við orkusækinn iðnað, sjávarútveg og ferðaþjónustu. Hugverkaiðnaður skapaði 16% af útflutningstekjum síðasta árs og vöxtur undanfarinna ára sýnir að í hugverkaiðnaði felast raunveruleg tækifæri fyrir Ísland. Sigurður segir að samkeppnishæfni hugverkaiðnaðar hér á landi hafi batnað að undanförnu með breytingum á skilyrðum og hvötum til nýsköpunar. Með frekari aðgerðum geti þessi nýja stoð orðið sú stærsta og mikilvægasta í íslensku efnahagslífi.
Tækifæri í metnaðarfullum markmiðum í umhverfis- og loftslagsmálum
Þá segir Sigurður að samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda sé eitt af mikilvægustu verkefnum samtímans og þegar hafi árangur náðst í þeirri baráttu hér á landi á síðustu áratugum, m.a. með nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa. Hann segir að metnaðarfull markmið á sviði umhverfis- og loftslagsmála verði áskorun fyrir samfélagið en að sama skapi verði til tækifæri til þess að þróa nýjar aðferðir til að gera hluti öðruvísi og betur. Til að svo verði þurfi því að ýta undir slíka framþróun með jákvæðum hvötum í stað þess að einblína á boð og bönn og styðja þurfi við og umbuna þeim sem stýra starfsemi sinni í átt að umhverfisvænni ferlum og starfsháttum.
Auka þarf enn frekar fjárfestingar í innviðum landsins
Sigurður segir að uppbygging innviða sé forsenda þess að atvinnulíf blómstri um land allt. Fjárfesting í innviðum hafi verið of lítil á síðustu árum og viðhaldi verulega ábótavant. Ef ekki verði bætt verulega í muni það bitna á lífskjörum í framtíðinni. Með fjárfestingu í innviðum séu byggðar upp stoðir fyrir hagvöxt framtíðarinnar. Hann segir að ríkisstjórnin þurfi að auka enn frekar í fjárfestingar í innviðum landsins þannig að þeir geti þjónað hlutverki sínu á öruggan hátt. Þá þurfi ríkisstjórnin að ráðast í nauðsynlegar umbætur til þess að liðka fyrir uppbyggingu hagkvæms húsnæðis fyrir landsmenn. Ljóst sé að sveitarfélögin þurfi að standa sig betur svo uppbygging verði skilvirk.
Í niðurlagi greinar sinnar segir Sigurður að ef atvinnulíf og stjórnvöld taki höndum saman og sæki tækifæri okkar tíma sé hægt að auka efnahagslega velsæld landsmanna. Það sé til mikils að vinna.
Hér er hægt að lesa greinina í heild sinni.
Frjáls verslun - 300 stærstu, desember 2021.