Fréttasafn



14. okt. 2019 Almennar fréttir Orka og umhverfi

Samstarf er lykill að árangri í loftslagsmálum

Samstarf er lykillinn að árangri í umhverfis- og loftslagsmálum. Lausnirnar eru ekki komnar fram en til að ná árangri og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samræmi við Parísarsamkomulagið verður atvinnulífið, stjórnvöld, háskólar og rannsóknarstofnanir að vinna saman að því að finna lausnir og koma þeim á markað. Þetta sagði Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóra SI, meðal annars í  opnunarávarpi sínu á Arctic Circle í Hörpu um helgina. 

Sigurður sagði stjórnvöld og atvinnulífið á Íslandi hafa stofnað formlegan vettvang um loftslagsbreytingar og grænar lausnir fyrir skömmu þar sem hann væri annar tveggja formanna. Hann sagði vettvanginn vera stofnaðann að frumkvæði íslenskra fyrirtækja og hafa tvö meginmarkmið. Annars vegar að vinna að kolefnishlutleysi á Íslandi og hins vegar að safna þeim lausnum sem þegar eru til og markaðssetja á heimsvísu til að hjálpa öðrum að ná sínum markmiðum. Þá nefndi hann að vonandi mundi þetta hvetja til ennfrekari nýsköpunar á þessu sviði. „Ríkisstjórnin vísar veginn með stefnu sem hefur áhrif á ákvarðanatöku í fyrirtækjum og hjá almenningi. Á síðasta ári kynnti ríkisstjórnin stefnu og aðgerðaráætlun um loftslagsmál þar sem markmiðið er að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040. Þetta er hvatning fyrir alla að upphugsa leiðir til að ná þessu metnaðarfulla markmiði.“  

Sigurður kom einnig inn á í ávarpi sínu að stjórn Samtaka iðnaðarins hafi fyrr á þessu ári samþykkt stefnu þar sem umhverfis- og loftslagsmál eru sett í forgrunn og það sýni að iðnaðurinn láti sig umhverfið varða. Þá nefndi hann að Samtök iðnaðarins væru meðal stofnenda tækniyfirfærsluvettvangsins Auðna, TTO á Íslandi, þar sem hann situr í stjórn. „Við tókum þátt því við viljum hvetja til nýsköpunar og við sjáum verðmæti í rannsóknum sem eru gerðar í háskólum og fjölmörgum stofnunum. Slíkar rannsóknir geta og verða vonandi grunnur að verðmætasköpun morgundagsins, ekki síst með nýjum lausnum við margvíslegum vandamálum, stórum og smáum.“