Fréttasafn



3. nóv. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki

Samstarf er lykillinn að árangri

Það er líklega óhætt að segja að oft hafi verið þörf, en nú sé nauðsyn, að við komum saman til að ræða hin fjölmörgu brýnu málefni íslensks mannvirkjaiðnaðar, sagði Árni Sigurjónsson, formaður SI, í upphafi ávarps síns á fjölmennu Mannvirkjaþingi SI sem fór fram í Iðunni í gær í fyrsta sinn. Hann sagði að þó okkur greindi stundum á um aðferðafræði, áherslur og vinnubrögð þá eigum við að vera óhrædd við að taka samtalið og rökræða. Árni sagði samstarf vera lykilinn að árangri.

Hér á eftir fer ávarp Árna: 

Þetta er mikill fundadagur hér í borginni í dag, ég leit við á opnun þéttskipaðrar Sjávarútvegsráðstefnu í Hörpunni í morgun og sat frábæran fund hjá Matvælaráði SI í hádeginu um nýsköpun í matvælaiðnaði. Það er því ánægjulegt að sjá hversu mörg eru mætt hingað í dag á þetta mikilvæga þing okkar.

Þó við fyrstu sýn kunni margir að telja þessa geira – sjávarútveg, matvæla- og framleiðsluiðnað og svo mannvirkjaiðnaðinn – ótengda og ólíka, er það í raun svo að margvíslegir þræðir, stórir sem smáir, tengja atvinnulífið saman. Þessir fundir sem ég minntist á sýna einnig að viðfangsefnin – tækifærin og áskoranirnar – sem fólk í ólíkum geirum atvinnulífsins er að fást við eru bara býsna lík. Nýsköpun, sjálfbærni, fjármagn, fjárfestingar, starfsumhverfi, orkuskipti og mannauður eru bara nokkur dæmi um slíkt.

Mannvirkjaiðnaðurinn er svo sannarlega að fást við þessi mál vítt og breitt. Starfsumhverfið er til að mynda afar krefjandi um þessar mundir og áskoranir vegna verðbólgu og hás vaxtastigs leynast víða. Þetta ástand sem leitt hefur til hækkandi vöruverðs og aðrir þættir eins og hækkun virðisaukaskatts af vinnu manna á verkstað sem tók fyrirvaralaust gildi fyrr á árinu hafa sett áform margra fyrirtækja í mannvirkjaiðnaði í uppnám.

Á sama tíma er ljóst að þörfin á uppbyggingu og sterkum mannvirkjaiðnaði er og verður gríðarleg fyrir samfélagið á komandi árum. Á það við hvert sem litið er – innviðir, húsnæði, viðhald mannvirkja og uppbygging fyrir atvinnuvegi landsins. Verkefni og tækifæri mannvirkjaiðnaðarins ættu því að verða bæði stór og fjölbreytt á komandi árum með tilheyrandi áskorunum.

Og talandi um áskoranir íslensks mannvirkjaiðnaðar, þá langar mig að draga sérstaklega fram þrjár slíkar sem ég veit að verða með einhverjum hætti umfjöllunarefni í málstofum dagsins hér á þinginu í dag.

Sú fyrsta lýtur að fyrirsjáanleika í uppbyggingu innviða. Leggja þarf áherslu á fyrirsjáanlegar og raunhæfar áætlanir um uppbyggingu samgönguinnviða sem markaðurinn getur treyst á að raungerist. Þá er mikilvægt að markaðurinn verði ekki nýttur til sveiflujöfnunar og fjárfestingar í samgönguinnviðum séu stöðugar og í takti við þarfir samfélagsins. Að öðrum kosti er hætt við að metnaðarfull uppbyggingaráform verði að engu og samgönguáætlun ótrúverðug. Þið vitið það enn betur en ég hversu mikilvægt það er fyrir mannvirkjaiðnaðinn að skapa þennan fyrirsjáanleika og stöðugleika sem okkur hefur jafnan skort hér á landi.

Önnur áskorunin lýtur að stöðu húsæðismarkaðarins en ljóst er að úrbætur og aðgerðir í húsnæðismálum munu verða eitt helsta umræðu- og viðfangsefni komandi kjarasamninga. Gefa þarf verulega í ef ekki á illa að fara. Á þetta höfum við hjá Samtökum iðnaðarins bent í mörg ár. Jarðskjálftamælarnir hafa gefið skýr merki um yfirvofandi umbrot en því miður hafa viðbrögðin ekki alltaf verið nægilega skjót. Með áframhaldandi framboðsskorti á íbúðum er hætta á að verðbólgan verði þrálát næstu árin með tilheyrandi háum vöxtum sem bíta verulega í hjá heimilum og fyrirtækjum. Um þessar mundir eru byggðar um 3.000 íbúðir á ári og spár gera ráð fyrir að það verði jafnvel enn minna byggt á næstu árum. Þörfin hefur hins vegar verið greind nær 5.000 íbúðum. Mörg hættumerki birtust í niðurstöðum nýrrar talningar HMS á íbúðum í byggingu þar sem kom meðal annars fram að frá því í mars á þessu ári og fram í september hafi aðeins verið hafin bygging á 768 nýjum íbúðum á landinu öllu. Þetta er ríflega 70% samdráttur samanborið við sama tímabil í fyrra þegar byrjað var að byggja 2.575 íbúðir.

Ríki, sveitarfélög og iðnaðurinn þurfa hér að leggja áherslu á að ganga í takti svo að metnaðarfull áform innviðaráðaherra um uppbyggingu samkvæmt rammasamningi ríkis og sveitarfélaga um húsnæðisuppbyggingu nái fram að ganga. Ryðja þarf kerfisbundnum hindrunum úr vegi og fjölga byggingarhæfum lóðum.

Þriðja og mögulega stærsta áskorun mannvirkjaiðnaðar, sem ég vildi leggja inn hjá ykkur í dag, felst í því að fá hæft fólk til starfa. Verkefnin krefjast fagþekkingar og iðnmenntunar. Þar viljum við gera betur og þar verðum við að gera betur. Samkvæmt nýrri greiningu SI sem við birtum í dag og má finna á heimasíðu samtakanna kemur fram að þrátt fyrir metfjölda brautskráðra úr iðn-, verk- og starfsnámi dugir ekki til ef mæta á þeim mikla skorti á iðnmenntuðum á íslenskum vinnumarkaði. Metið var slegið á síðasta skólaári þegar 1.189 voru útskrifaðir og aukin vakning hefur sannarlega átt sér stað um þá möguleika sem felast í iðnnámi sem skilar sér í aukinni aðsókn.

Því miður er samhliða aukinni aðsókn fjölmörgum umsóknum hafnað ár hvert og hefur hlutfall þeirra sem hafnað er aukist. Undanfarin ár hefur um 600 -1.000 nemendum verið vísað frá iðnnámi samanlagt á haust- og vorönn vegna þess að iðnnámsskólarnir geta ekki tekið við fleiri nemendum. Að mati SI er þetta mjög neikvæð þróun og við erum dag hvern einbeitt í þeirri viðleitni að tryggja aukið fjármagn og bætta aðstöðu í iðnnámi. Þetta er okkur hjartans mál.

Ljóst er að skortur á vinnuafli hefur verið dragbítur á vöxt iðnaðarins síðustu ár og tækifærum til aukinnar verðmætasköpunar greinarinnar hefur verið fórnað vegna þess að framboð vinnuafls með rétta færni og menntun hefur ekki verið nægjanlegt.

Ég vil að lokum ítreka að það er ánægjulegt að sjá hvað hópurinn sem að hér situr er fjölbreyttur en það er nauðsynlegt að þessi hópur hittist. Það eru fáar atvinnugreinar sem gera kröfu um jafn víðtækt samstarf mismunandi stétta til að koma vöru á markað. Hvort sem það er uppbygging á íbúðarhúsnæði, innviðum eða stórum opinberum byggingum. Ef við lítum í kringum okkur hér í dag þá blasir sú staðreynd við. Skipulag, hönnun, framkvæmd, eftirlit, byggingarvörur, fjármagn, gæðastýring, öryggi – allt þarf þetta að ganga upp svo að úr verði góð vara almenningi og samfélaginu til heilla og iðnaðinum til sóma.

En við vitum það líka öll sem hér erum að stundum erum við ekki sammála. Okkur greinir stundum á um aðferðafræði, áherslur og vinnubrögð en þá eigum við að vera óhrædd við að taka samtalið og rökræða. Samstarf er lykillinn að árangri.

En góðir gestir, ný stefna Mannvirkjaráðs sem kynnt verður hér á eftir mun endurspegla áherslur og helstu verkefni mannvirkjaiðnaðarins næstu árin. Við viljum kynna þessar áherslur hér í dag og í framhaldinu móta verkefnin á grundvelli stefnunnar. Ég vil hvetja ykkur til að taka þátt í umræðum og koma með hugmyndir og ábendingar sem Mannvirkjaráð mun svo taka með sér áfram inn í áframhaldandi vinnuna.

Ég vona að við eigum öll eftir að njóta þess að vera hér samankomin og ræða málefni greinarinnar.