Fréttasafn



20. mar. 2023 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Samstarf í þágu íslenskra matvælaframleiðenda

Samtök iðnaðarins (SI) og Samtök smáframleiðenda matvæla (SSFM)/Beint frá býli (BFB) hafa ákveðið að viðhalda samstarfi um sameiginleg hagsmunamál félagsmanna í matvælaframleiðslu. Í ályktun samtakanna um áframhaldandi samstarf segir að mikil tækifæri blasi við íslenskri matvælaframleiðslu á næstu árum og áratugum. Mikilvægt sé að aðilar sem starfi í þágu hagsmuna íslenskra matvælaframleiðslu vinni þétt saman og beiti sér fyrir því að stefnumörkun stjórnvalda endurspegli þessi tækifæri og geri fyrirtækjum í matvælaframleiðslu kleift að sækja fram. Í ályktuninni kemur fram að hið opinbera þurfi að stórefla fjárfestingu í menntun á sviði matvælaframleiðslu.

Einnig segir í ályktun samtakanna að sameiginlegir hagsmunir matvælaframleiðenda byggi á samvinnu ólíkra fyrirtækja á grundvelli áherslna á sviði sjálfbærni, öryggis, heilnæmis og verðmætasköpunar. Með slíku skapist aukin tækifæri til að styrkja stöðu innlendrar matvælaframleiðslu. 

Hér er hægt að nálgast ályktunina.

Bændablaðið, 31. mars 2023.