Fréttasafn



3. apr. 2019 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Samstillt átak tryggir mjúka lendingu hagkerfisins

Með samstilltu átaki í opinberum fjármálum, í peningamálum og meðal aðila vinnumarkaðarins má sem best tryggja mjúka lendingu hagkerfisins. Tæki peningastjórnunarinnar eru í þessu sambandi öflug. Seðlabankinn er með stórann gjaldeyrisforða sem við þessar aðstæður á að nýta til að varna sveiflum í gengi krónunnar. Eftir aðhaldsaðgerðir síðustu ára eru stýrivextir Seðlabankans nokkuð háir um þessar mundir. Með lækkun þeirra er hægt að draga úr niðursveiflunni. Forsenda þess er hins vegar víðtæk samstaða aðila vinnumarkaðarins um kjarasamninga sem samrýmast verðstöðugleika. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í Markaðnum sem fylgir Fréttablaðinu í dag. Yfirskrift greinarinnar er Mildum niðursveifluna. 

Þá segir Ingólfur að ánægjulegt sé að sjá áform ríkisstjórnarinnar í nýframkominni tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2020-2024 þar sem fjárframlag til samgöngumála sé aukið úr 100 mö.kr. í 120 ma.kr. á tímabilinu. Einnig segir hann ánægjulegt að sjá þá áherslu sem þar sé lögð á nýsköpun og menntun en ljóst sé að með áherslu á þá málaflokka megi renna stoðum undir samkeppnishæfni landsins og hagvöxt framtíðarinnar sem einkennist af fjölbreytileika og verðmætum störfum.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.