Fréttasafn25. sep. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Samtal er lykill að árangri í húsnæðisuppbyggingu

Friðrik Ágúst Ólafsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, ávarpaði landsfund Félags byggingarfulltrúa sem haldinn var í Reykholti í Borgarfirði síðastliðinn föstudag. Yfirskrift erindis Friðriks var „samtal er lykill að árangri“. 

Í erindi sínu fór Friðrik meðal annars yfir hvað betur mætti fara í samskiptum leyfisgjafa og framkvæmdaraðila og hvað það væri helst sem væri jákvætt í samskiptum við leyfisgjafa. Hann sagði markmiðið ætti að vera að draga úr flöskuhálsum hjá sveitarfélögum í tengslum við húsnæðisuppbyggingu og að hvetja til samvinnu milli sveitarfélaga og fyrirtækja í bygginga- og mannvirkjagerð. Þá nefndi Friðrik mikilvægi þess að samræmi væri á milli sveitarfélaga, meðal annars í rafrænni stjórnsýslu í mannvirkjagerð og samræmi við aðra aðila sem koma að uppbyggingu húsnæðis eins og veitur og slökkvilið. Auk þess væri mikilvægt að samræma beitingu á lögum og byggingarreglugerð og samræma ætti gjaldtöku sveitarfélaga, meðal annars lóða- og byggingagjöld.

Í kjölfar erindis Friðriks var efnt til samtals og skoðanaskipta á fundinum.