Fréttasafn



15. mar. 2021 Almennar fréttir

Samtal RSÍ UNG við formann SI

Rætt er við Árna Sigurjónsson, formann SI, í hlaðvarpsþætti ungliðahreyfingar Rafiðnaðarsambands Íslands,  UNG, um formannshlutverkið, starfsemi Samtaka iðnaðarins, Tækniskólann og margt fleira. 

Þegar Árni er spurður um hvað Samtök iðnaðarins geri segir hann samtökin vera heildarsamtök iðnrekenda og iðnaðarins, það er atvinnurekenda í iðnaði. Hann segir að hægt sé að rekja sögu Samtaka iðnaðarins í því formi sem við þekkjum til haustsins 1993 þegar samtökin voru stofnuð og tóku síðan til starfa um áramótin 1993-94 og hafi þar með orðið til úr sameiningu að minnsta kosti 6 býsna stórra félagasamtaka. Hann segir að frá þeim tíma hafi síðan bæst í samtökin og þar á meðal Samtök rafverktaka, SART. 

Hagsmunir atvinnurekenda sem fara vel saman við hagsmuni launþega

Árni segir samtökin vera víðfem með um 1.400 félagsmenn, allt frá einyrkjum og meisturum upp í stærstu fyrirtæki landsins og það sé því heilmikil flóra. Hann segir félagsmenn geta verið beina aðila sem eru félög eða fyrirtæki eða menn öðlast aðild að SI í gegnum undirsamtök eða undirfélög, eins og meistarafélögin, „Það eru ýmsar leiðir inn í samtökin. Okkar hlutverk er að halda utan um hagsmuni iðnaðarins, það er hagsmuni atvinnurekenda sem fara vel saman við hagsmunu launþega. Okkar hlutverk er fyrst og fremst að halda utan um hagsmuni okkar félagsmanna á öllum sviðum. Við erum í nánu samráði við okkar félagsmenn, annað hvort beint við einstaka aðila eða í gegnum starfsgreinahópa eða undirsamtök.“ 

Iðnaðurinn að breikka

Árni segir að iðnaðurinn hafi verið að breikka og sé ólíkur því sem var í gamla daga. Hann segir að hjá samtökunum sé vel fylgst með þróun í löggjöf og reglusetningu en einnig hafi samtökin frumkvæði að því að vekja athygli á málum sem skipta máli fyrir greinina í heild sinni. „Við getum tekið dæmi frá síðasta ári þegar við lögðum áherslu á nýsköpun. Okkur fannst tilefni til þess að hefja þá umræðu upp á enn hærra plan.“ Hann segir að það hafi snúið að regluverki, lagaumhverfi og skattaumhverfi en ekki síður vitundarvakningu um nýsköpun, bæði  inná við hjá félagsmönnum og út á við í þjóðfélaginu. „Þannig að nýsköpun hefur verið mikið í umræðunni og við teljum okkur hafa náð heilmiklum árangri bara með því að taka þetta málefni og setja á það sérstakan fókus.“

Hér er hægt að hlusta á samtalið við Árna í heild sinni á Spotify.