Fréttasafn



25. feb. 2022 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna flutningi fasteignaskrár til HMS

Samtök iðnaðarins fagna áformum innviðaráðherra um fyrirhugaðan flutning fasteignaskrár yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, HMS. Breytingin er að mati samtakanna nauðsynleg þar sem markmiðið er að einfalda og efla þjónustu við fólk og fyrirtæki á sviði húsnæðismála og tryggja enn frekari samhæfingu milli ríkisstofnana og sveitarfélaga líkt og kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins. Með tilkomu öflugrar Mannvirkjaskrár HMS og flutningi fasteignaskrár til HMS telja Samtök iðnaðarins að loks verði hægt að undirbúa verklegar framkvæmdir og aðgerðir stjórnvalda á húsnæðismarkaði út frá réttum gögnum hverju sinni. Fyrirhugaðar breytingar eru því mikil gleðitíðindi að mati Samtaka iðnaðarins.

Samtök iðnaðarins hafa lengi gagnrýnt þau opinberu gögn sem birt hafa verið á vegum Þjóðskrár og Hagstofu Íslands um fjölda nýbygginga þar sem gögnin úr fasteignaskrá hafa gefið ranga mynd af stöðu á íbúðamarkaði. Ástæða þess að Samtök iðnaðarins hófu talningar íbúða í byggingu á sínum tíma og eru enn í slíkum talningum er að miklar tafir eru á skráningu byggingarfulltrúa á íbúðum í byggingu sem gerir það að verkum að ekki er hægt að byggja mat á íbúðum í byggingu á þeim gögnum. Tölur sem byggja á skráningu byggingarfulltrúa, líkt og Þjóðskrá og Hagstofan gera, gefa því ekki rétta mynd af íbúðum í byggingu á hverjum tíma. Þannig kemur t.d. uppsveiflan og niðursveiflan seinna og af minni krafti í gögnum Þjóðskrár og Hagstofunnar en í talningu SI. Gögn Hagstofunnar um fjölda íbúða í byggingu og fjölda fullgerðra íbúða hafa af þessum sökum verið of lág síðustu ár. Fjöldi íbúða í byggingu í gögnum Þjóðskrár og Hagstofunnar endurspeglar fyrst og fremst skráningu byggingarfulltrúa á íbúðum í byggingu en ekki hvað er í raun verið að byggja margar íbúðir á hverjum tíma. Gögn Hagstofunnar um íbúðafjárfestingu í þjóðhagsreikningum hvíla á þessum sömu gögnum frá Þjóðskrá. Þær eru því með sama galla þó að framsetning þeirra sé með öðrum hætti og tilgangurinn sé annar.

Með talningu SI á íbúðum í byggingu sem birtist 25. mars 2021 var sérstaklega fjallað um þetta vandamál í viðauka. Þar kemur m.a. fram að íbúðir í byggingu á höfuðborgarsvæðinu voru þá samkvæmt tölum Þjóðskrár í byrjun mars 2021 2.327 talsins samanborið við 3.523 í talningu SI á sama tíma. Munurinn var því 1.196 íbúðir eða 51%.

Mynd-fyrir-frett_1645788656261