Fréttasafn



18. nóv. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

Samtök iðnaðarins fagna vaxtalækkun

Samtök iðnaðarins fagna því að peningastefnunefnd Seðlabankans hafi ákveðið að lækka vexti bankans um 0,25 prósentur. Ljóst er að langtíma verðbólguvæntingar við markmið gefa bankanum færi á að beita stýrivöxtunum af krafti til að vinna á móti versnandi efnahagshorfum. Lækkunin kemur ekki til af góðu en í spá bankans felast bæði væntingar um meiri samdrátt í ár og minni hagvöxt á næsta ári. Full þörf er á því að mati SI að beita stýritækjum peningamála og opinberra fjármála af fullum þunga til þess að draga úr niðursveiflunni og skapa kröftuga viðspyrnu fyrir hagkerfið.

Lækka þarf langtímavexti

Langtímavextir hafa verið að hækka undanfarið. Það er mjög úr takti við það sem hagkerfið þarf á þessum erfiðum tímum að mati SI. Snúa þarf þeirri hækkun í lækkun. Rætt er um orsakir þessa í riti Seðlabankans, Peningamálum, sem birt var samhliða vaxtaákvörðuninni í morgun. Þar segir að væntingar um aukna skuldsetningu ríkissjóðs á næstu árum vegi eflaust þungt í hækkun langtímavaxta að undanförnu. Að mati SI hefur það hins vegar einnig haft umtalsverð áhrif að Seðlabankinn hafi ekki fylgt eftir tilkynningu sinni frá því í mars um að hann ætlaði að fara út í kaup á ríkisskuldabréfum á eftirmarkaði til að stemma stigum við áhrifum aukinnar fjármögnunarþarfa ríkissjóðs á langtímavexti. Skuldabréfakaup bankans hafa einungis numið um 2 mö.kr. en boðuð kaup bankans voru allt að 150 ma.kr.

Orðum þurfa að fylgja aðgerðir

Í þessu sambandi eru Samtök iðnaðarins ánægð með að í yfirlýsingu Peningastefnunefndar sé sagt að nefndin muni nota þau tæki sem hún hefur yfir að ráða, m.a. kaup Seðlabankans á ríkisskuldabréfum, til að styðja við þjóðarbúskapinn og tryggja að lausara taumhald peningastefnunnar miðlist með eðlilegum hætti til heimila og fyrirtækja. Samtökin vilja hins vegar minna á að orðum þurfa að fylgja aðgerðir í þessum efnum.

Beita þarf öllum tækjum hagstjórnar

Samtök iðnaðarins vilja benda sérstaklega á að fjárfesting einkaaðila er að dragast hratt saman um þessar mundir. Fram kemur í Peningamálum að mat bankans sé að almenn atvinnuvegafjárfesting muni dragast saman um liðlega 22% í ár og við bætist um fjórðungssamdráttur í fjárfestingum orkusækins iðnaðar. Þá reiknar bankinn með um fimmtungs samdrætti í fjárfestingu í íbúðarhúsnæði í ár. Bendir hann á að samdrátturinn sé m.a. til kominn vegna erfiðari fjármögnunar nýrra verkefna auk takmarkaðs lóðaframboðs. Vilja SI benda á í þessu sambandi mikilvægi þess að ná vaxtastiginu lengra niður, ekki síst langtímavöxtum, og að nægt framboð fjármagns sé tryggt til framkvæmda. Einnig vilja SI benda á mikilvægi þess að sveitarfélög tryggi nægt framboð lóða en auki ekki á niðursveifluna með aðhaldi í þeim efnum. Árferði efnahagsmála er með þeim hætti að beita þarf öllum tiltækum tækjum hagstjórnar til þess að skapa störf og kröftuga viðspyrnu fyrir hagkerfið.  


Frettabladid.is, 18. nóvember 2020.