Fréttasafn11. feb. 2015 Menntun

Samtök iðnaðarins gerast bakhjarl Team Spark

 

Samtök iðnaðarins hafa gerst bakhjarl Team Spark en undirritun fór fram á UT Messunni í Hörpu nú um helgina. Team Spark er lið verkfræðinema við Háskóla Íslands sem hanna og smíða rafkappakstursbíla til keppni á alþjóðlegum vettvangi í „Formula Student“ keppninni þar sem lið frá mörgum af bestu tækniháskólum heims keppast um að smíða besta kappakstursbílinn.

Team Spark hefur vakið verðskuldaða athygli og þá meðal annars fyrir gott hlutfall milli kynja en í stjórn liðsins eru tvær stelpur og tveir strákar, og í liðinu öllu eru 11 stelpur sem telst mjög gott innan keppninnar. Á síðasta ári hlaut rafkappaksturbíll liðsins hæstu gefnu einkunn á sviði sjálfbærni og var Team Spark í kjölfarið útnefnt „Nýliði ársins“ .

Samningurinn milli Samtaka iðnaðarins og Team Spark er til þriggja ára, en Team Spark vinna nú hörðum höndum að smíði nýs rafknúins kappakstursbíls og stefnt er að því að hann verði tilbúinn til keppni í sumar.