Samtök iðnaðarins samstarfsaðili Lagavita
Samtök iðnaðarins eru komin í formlegt samstarf við Lagavita sem hjálpar lögfræðingum að leysa úr flóknum lögfræðilegum viðfangsefnum með aðstoð gervigreindar.
Í tilkynningu segir Jóhannes Eiríksson, framkvæmdastjóri Lagavita: „Innan Samtaka iðnaðarins eru 1.700 fyrirtæki og félög sjálfstæðra atvinnurekenda, sem eru mjög ólík innbyrðis, hvort sem litið er til stærðar, framleiðslu eða markaða. Hjá félagsaðilum samtakanna koma því upp margvísleg lögfræðileg álitaefni á hinum ýmsu réttarsviðum og gleðilegt að Lagaviti muni styrkja samtökin við að veita góða og skilvirka þjónustu og ráðgjöf til félagsaðila.“
Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, segir í tilkynningunni: „Samtök iðnaðarins eru málsvari iðnaðar á Íslandi og standa vörð um samkeppnishæfni íslenskra iðnfyrirtækja. Samtökin veita félagsmönnum ráðgjöf og aðstoð í lögfræðilegum málefnum á afar breiðum grunni. Samtökin fagna mjög samstarfi við Lagavita en um er að ræða lausn sem mun styðja við skilvirka, vandaða og örugga þjónustu til félagsmanna. Fyrstu prófanir hafa verið afar jákvæðar og sýnt fram á gæði lausnarinnar.“
Tómas Eiríksson, stofnandi Lagavita, Lilja Björk Guðmundsdóttir, yfirlögfræðingur SI, Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Jóhannes Eiríksson, stofnandi og framkvæmdastjóri Lagavita.