Fréttasafn



26. apr. 2018 Almennar fréttir Iðnaður og hugverk

Samtök íslenskra handverksbrugghúsa stofnuð

Samtök íslenskra handverksbrugghúsa voru nýlega stofnuð en aðild að samtökunum eiga 21 brugghús sem dreifast um allt land. Um er að ræða smærri áfengisframleiðendur á Íslandi sem gerja og framleiða áfengi í eigin framleiðslutækjum. Hvert um sig framleiðir á bilinu nokkur hundruð til eina milljón lítra á ári. Formaður samtakanna er Sigurður Snorrason hjá Rvk. Brewing Co. sem fljótlega hefur starfsemi í Skipholti í Reykjavík. Sigurður kynnti nýju samtökin á fundi hjá Samtökum iðnaðarins í vikunni.

Samtökin hyggjast standa vörð um hagsmuni handverksbrugghúsa með því að fylgja eftir nokkrum málum; að hér á landi verði smærri áfengisframleiðendum veittur afsláttur af áfengisgjaldi í samræmi við venjur og heimildir úr Evrópusambandinu, að framleiðendur fái að selja framleiðslu sína beint til almennings út úr verksmiðju sinni eins og tíðkast í öðrum Norðurlöndum þar sem ríkið hefur einkaleyfi á áfengissölu og samtökin vilja standa vörð um aðgengi handverksbrugghúsa með vörur sínar á bari og í verslanir ÁTVR.

Í vor er áformað að gefa út landakort sem sýnir staðsetningu handverksbrugghúsa umhverfis landið en handverksbrugghús eru staðsett í öllum fjórðungum landsins.

Aðilar að Samtökum íslenskra handverksbrugghúsa eru:

  • Austri brugghús Egilsstaðir
  • Bastard / brewpub Reykjavík
  • Beljandi brugghús Breiðdalsvík
  • Bjórsetur Íslands Hólar í Hjaltadal
  • The Brothers Brewery Vestmannaeyjum
  • Brugghús Steðja Borgarnes dreifbýli
  • Brugghúsið Draugr Hvalfirði
  • Bruggsmiðjan / Kaldi Árskógssandi
  • Bryggjan Brugghús Reykjavík
  • Dokkan brugghús Ísafirði
  • Eimverk distillery Garðabæ
  • Gæðingur Skagafirði
  • Húsavík Öl Húsavík
  • Jón Ríki brewery & restaurant Höfn í Hornafirði
  • Malbygg Reykjavík
  • RVK Brewing Co. Reykjavík
  • Segull 67 brewery Siglufirði
  • Smiðjan brugghús Vík í Mýrdal
  • Ægir brugghús Reykjavík
  • Ölverk Hveragerði
  • Ölvisholt brugghús Selfoss dreifbýli