Samtök mannvirkjafyrirtækja á Vestfjörðum funda á Ísafirði
Fundur Samtaka mannvirkjafyrirtækja á Vestfjörðum fór fram í Edinborgarhúsinu á Ísafirði fimmtudaginn 15. janúar. Fulltrúar SI á fundinum voru Þorgils Helgason og Kristján Daníel Sigurbergsson. Á fundinum voru kynntar helstu áskoranir greinarinnar á svæðinu og fjallað um mikilvægar áherslur Samtaka iðnaðarins í byggingariðnaði, skipulagsmálum og menntamálum. Fundurinn á Ísafirði sýndi glöggt að byggingariðnaðurinn stendur frammi fyrir fjölbreyttum áskorunum, jafnt á landsvísu sem og á landsbyggðinni. Skýr skilaboð komu fram um nauðsyn þess að bæta rekstrarskilyrði greinarinnar með skynsamlegri gjaldtöku, öflugri menntastefnu og auknum stuðningi við löglega starfsemi. Í máli Þorgils og Kristjáns kom fram að Samtök iðnaðarins munu áfram vinna að því að tryggja hagkvæmt og réttlátt umhverfi fyrir uppbyggingu og þróun í mannvirkjagerð á Vestfjörðum og á landsvísu.
Þung gjaldtaka sveitarfélaga dregur úr uppbyggingu
Á fundinum fjallaði Þorgils Helgason, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, um gjaldtöku sveitarfélaga og áhrif hennar á byggingarkostnað. Niðurstöður nýrrar könnunar meðal verktaka sýna að hlutfall gjalda af uppbyggingarkostnaði íbúða hefur hækkað verulega á síðustu árum og dregið úr arðsemi framkvæmda. Gatnagerðargjöld og byggingarréttargjöld hafa hækkað langt umfram byggingarvísitölu og eru gjöldin bæði há og mismunandi milli sveitarfélaga.
Á fundinum kom fram skýr krafa um að draga þurfi úr gjaldtöku, einfalda kerfið og auka gagnsæi. Tekjur sveitarfélaga af slíkri gjaldtöku nema tugum milljarða á þremur árum, en óljóst er hvernig fjármunirnir nýtast við uppbyggingu grunninnviða.
Nýjar kröfur í byggingarreglugerð um ljósvist
Þorgils kynnti einnig nýjan ljósvistarkafla í byggingarreglugerð sem tekur gildi árið 2026. Reglurnar fela í sér auknar kröfur um dagsbirtu, raflýsingu og útsýni í íbúðarhúsnæði. Áhersla er lögð á bætt lífsgæði og heilsu íbúa, og mun Húsnæðis- og mannvirkjastofnun gefa út tæknileiðbeiningar í samvinnu við hagaðila til að styðja við innleiðingu reglugerðarinnar.
Hækkun endurgreiðslu VSK lykilatriði gegn svartri atvinnustarfsemi
Kristján Daníel Sigurbergsson, viðskiptastjóri á mannvirkjasviði SI, fjallaði um mikilvægi þess að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts á vinnu iðnaðarmanna aftur í 100%. Það mun lækka byggingarkostnað auk þess að draga úr svartri atvinnustarfsemi, styðja við faglega framkvæmd og vernda neytendur. Takmörkuð endurgreiðsla í dag er talin grafa undan trausti og gæðum í mannvirkjagerð.
Atvinnustefna og skortur á iðnmenntuðu starfsfólki
Í tengslum við umræðu um atvinnustefnu ríkisstjórnarinnar var vakin athygli á vaxandi skorti á iðn- og tæknimenntuðu starfsfólki. Á síðustu árum hefur árlega 600-1000 manns verið synjað um að hefja iðnnám vegna skorts á húsnæði og fjármagni í verknámsskólum og þess í stað verið beint í bóknám. Samtökin leggja áherslu á aukin fjárframlög, fjölgun nemendaígilda, fjölbreyttari námsleiðir og markvissar umbætur á menntakerfinu.


