Sannarlega dýrkeypt ákvörðun að halda stýrivöxtum óbreyttum
Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, segir í samtali við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur í beinni útsendingu í kvöldfréttum RÚV að þetta sé sannarlega dýrkeypt ákvörðun að halda stýrivöxtum óbreyttum. „Hagkerfið er að kólna og háir vextir eru sannarlega þungur baggi á heimilum landsins og fyrirtækjum. Áhrifanna er meðal annars farið að gæta í iðnaði þar sem við sjáum einfaldlega samdrátt. Við sjáum það til dæmis á fjölda starfsfólks, þar hefur orðið fækkun í öllum helstu undirgreinum iðnaðar núna síðasta árið,“ segir Sigurður.
Lausnin er samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins
Sigurður segir í fréttinni að rætur verðbólgunnar séu annars vegar launahækkanir og hins vegar hækkanir á húsnæðisverði. „Hvað húsnæðismálin varðar þá erum við einfaldlega í efnahagslegum vítahring. Við tökum undir með Seðlabankanum þar, að háir vextir þeir búa ekki til nýjar lóðir og þeir flýta ekki ferli skipulagsmála. Þvert á móti þá draga vextir úr uppbyggingu og þar með viðhalda þessu ástandi.“ Hann segir að lausnin þarna sé samstillt átak ríkis, sveitarfélaga og iðnaðarins til þess að fara í umbætur, auka uppbygginguna í takt við þarfir samfélagsins. „Seðlabankinn er í dag skilinn eftir einn á vellinum með stýrivextina sem sitt eina tæki. Ríkisvaldið verður núna að létta undir. Sem betur fer höfum við fengið skýr merki um vilja en það þarf að koma þeim vilja í verk.“
Of hátt aðhaldsstig of dýrkeypt fyrir samfélagið
„Við höfum talið að aðhaldsstigið sé of hátt og þar með sé þessi leið of dýrkeypt fyrir samfélagið,“ segir Sigurður. Hann segir að það sé hægt að fara aðrar leiðir. „Við sjáum ekki betur en að það séu öll skilyrði til þess að lækka vexti á næsta vaxtaákvörðunadegi í næsta mánuði.“
Hér er hægt að horfa á fréttina í heild sinni.
RÚV, 8. október 2025.
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir og Sigurður Hannesson.