Fréttasafn18. nóv. 2020 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Seðlabankinn beiti stýritækjum sínum

Mikilvægt er að Seðlabankann beiti stýritækjum sínum til að snúa hækkun langtímavaxta í lækkun. Töf í þessu er kostnaður fyrir fyrirtæki og heimili í landinu og kemur ekki síst fram í því að atvinnuleysi heldur áfram að aukast. Með skjótum aðgerðum af hálfu bankans má hins vegar tryggja lækkun langtímavaxta og milda þannig þessa djúpu niðursveiflu. Þetta segir Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, í grein sinni í ViðskiptaMogganum með yfirskriftinni Snúa þarf hækkun langtímavaxta í lækkun

Ingólfur segir að stjórnvöld hér á landi hafi búið vel að því að fremur góð skuldastaða ríkissjóðs í sögulegu og alþjóðlegu ljósi hafi gefið svigrúm til að beita ríkisfjármálunum af fullum þunga til að vinna á móti neikvæðum efnahagslegum afleiðingum heimsfaraldurs. Mikilvægt sé að Seðlabankinn standi með stjórnvöldum í þeirri vegferð, ekki bara með lækkun stýrivaxta heldur einnig með því að beita stýritækjum sínum til þess að tryggja að aukinn halli ríkissjóðs birtist ekki í hækkun langtímavaxta og vinni þannig á móti meginmarkmiði hagstjórnar um þessar mundir sem sé að skapa kröftuga efnahagslega viðspyrnu til heilla fyrir fyrirtæki og heimili í landinu. 

Dýpsti og snarpasti samdráttur í íslenskri efnahagssögu

Ingólfur segir að hækkun langtímavaxta sé alls ekki það sem hagkerfið þurfi í þessu árferði og andstæð þeim markmiðum hagstjórnar að skapa kröftuga viðspyrnu fyrir efnahagslífið. Vextir hafi síðustu þrjá mánuði hækkað um nær eitt prósentustig sem verði að teljast umtalsvert. Vaxtahækkunin eigi sér stað á sama tíma og fyrirtæki og heimili landsins séu að takast á við einn dýpsta og snarpasta samdrátt í íslenskri efnahagssögu. Hún eigi sér einnig stað nú þegar dragi úr óvissu í kjölfar frétta af bóluefnum gegn COVID-19 sem hvetji til þess að farið sé af stað í auknar fjárfestingar. Vaxtahækkunin hægi því á efnahagsbatanum. Hækkun langtímavaxta dragi frekar úr innlendri eftirspurn, auki dýpt niðursveiflunnar og ýti undir fækkun starfa. Mikilvægt sé að hagstjórnartækjum sé beitt til að snúa þessari óheillaþróun vaxtahækkunar í lækkun.

Hér er hægt að lesa grein Ingólfs í heild sinni.