Fréttasafn4. okt. 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

Seðlabankinn fari ekki of grimmt í vaxtahækkanir

Rætt er við Ingólf Bender, aðalhagfræðing SI, í frétt Morgunblaðsins um vaxtaákvörðun Seðlabankans sem verður kynnt á morgun. Hann telur að það verði mildari tónn í vaxtaákvörðun peningastefnunefndar en í þeirri síðustu. Það muni að líkindum birtast í 0,25 til 0,5 prósentustiga hækkun en meginvextir Seðlabankans eru nú 5,5% en voru 2% í byrjun ársins. Máli sínu til stuðnings segir Ingólfur í fréttinni að vaxtahækkanir Seðlabankans í ár hafi þegar haft tilætluð áhrif og dregið úr verðbólgu, með því meðal annars að kæla íbúðamarkaðinn. „Ég myndi halda að ef Seðlabankinn heldur fyrri dampi í hækkunum sé hann að mislesa stöðuna og fara of grimmt í hækkanir, sem getur þá komið niður á hagvexti. Hann þarf að gæta sín að bremsa ekki hagkerfið af í þeirri baráttu sem hann er réttilega í gagnvart verðbólgunni,“ segir Ingólfur og bendir á að líklega muni hægja á hagvexti þegar kemur fram á næsta ár.

Aðrir viðmælendur Morgunblaðsins á fjármálamarkaði telja að Seðlabank­inn muni hækka vexti á morgun. Í fréttinni kemur fram að það yrði níunda vaxtahækkunin í röð frá maímánuði 2021 en meginvextir Seðlabankans voru 0,75% þegar hækkunarlotan hófst, eftir sögulega lága vexti.

Morgunblaðið / mbl.is, 4. október 2022.