Seðlabankinn heldur eftirspurn á húsnæðismarkaði niðri
Það er algjörlega ljóst að það eru mjög margir sem vilja kaupa fasteign og það eru margir sem vilja komast inn á markaðinn sem hafa beðið á hliðarlínunni á meðan er staðan einfaldlega sú að Seðlabankinn hefur haldið eftirspurninni niðri með háum vöxtum og með því að setja ákveðin skilyrði varðandi greiðslumat. Þetta segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, meðal annars í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni. Hann segir að þetta hafi varið gert til þess að stemma stigu við þenslu í samfélaginu. „En þessi eftirspurn og þrýstingur bara eykst og eykst með tímanum þegar færri og færri komast inn á markaðinn. Þannig að við höfum áhyggjur af því að þegar staðan kemst í meira jafnvægi hjá okkur og verðbólga og vextir fara niður þá eru fleiri sem geta keypt og komist inn á markaðinn. Þannig að ef við horfum kannski tvö ár fram í tímann þá höfum við áhyggjur af stöðunni þá því þá er verið að byggja færri íbúðir. Þó að umræðan sé að sala nýrra íbúða sé dræm þá er það samt þannig að salan er ágæt víða en það fer eftir verkefnum, staðsetningu og aðstæðum.“
Of hátt vaxtastig og skilyrði greiðslumats halda stórum hluta kaupenda út af markaðnum
Þegar Sigurður er spurður út í hvort skortur sé á réttu fasteignunum segir hann að það sé að hluta til rétt. „En stóra ástæðan er einfaldlega sú að vaxtastigið er svo hátt og það eru þessi skilyrði varðandi greiðslumati sem halda stórum hluta kaupenda bara einfaldlega út af markaðnum.“ Hann segir að við hljótum öll að vilja það að vextir á Íslandi lækki. „Við höfum frekar bent á aðrar aðgerðir til þess að ná jafnvægi hjá okkur. það er auðvitað þannig að yfir 40% verðbólgunni skýrist af húsnæðisverðshækkuninni í fortíðinni þannig að íbúðamarkaðurinn hefur verið að draga vagninn þarna. Þannig að við höfum verið að benda á að ríkið geti gripið til ýmissa aðgerða og sveitarfélögin til að að styrkja framboðshliðina, auka framboðið af íbúðum sem að þarf.“
Óhagkvæmara að byggja vegna fjármagnskostnaðar og hækkunar gjalda hins opinbera
Þá bendir Sigurður á háan fjármagnskostnað verktaka sem byggja íbúðirnar. „Í öðru lagi þá má nefna það að gjöld hafa hækkað mikið. Við sjáum það að Reykjavíkurborg til dæmis er að stórhækka gatnagerðargjöld og ríkið lækkaði endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna íbúðaruppbyggingar. Þetta þýðir kannski einhverjar milljónir í aukakostnað per íbúð þannig að það eru ýmis gjöld sem hafa verið að hækka og gera það óhagkvæmara að byggja.“ Einnig nefnir Sigurður að lóðir hafi verið af skornum skammti. „Sérstaklega fjölbreytt úrval lóða og svo má ekki gleyma því að sveitarfélögin hafa mjög mikið um það að segja hvar er byggt, hvernig íbúðir í gegnum skipulagsmálin. Þar er líka ákveðið vandamál. Ég held að ef við mundum rýna þetta eftir sveitarfélögum þá sjáum við mun bæði í sölu og öðru. Eitt sem skiptir máli þar er bara fjöldi eða aðgengi að bílastæðum. Það hefur alveg haft áhrif á sölu einhvers staðar. Áherslur í Reykjavíkurborg hafa miðað að því að draga úr bílastæðum.“
Á vef Vísis er hægt að hlusta á viðtalið við Sigurð í heild sinni.
Bylgjan / Reykjavík síðdegis, 21. ágúst 2025.