Fréttasafn



23. okt. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

Seðlabankinn heldur markaðnum niðri með handafli

Rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, í hádegisfréttum Bylgjunnar þar sem segir á Vísi að hann sé ómyrkur í máli hvað varðar uppbyggingu húsnæðis sem hann segir alltof litla. Í fréttinni kemur fram að Sigurður hafi verið gestur Kristjáns Kristjánssonar á Sprengisandi þar sem hann hafi verið afdráttarlaus í tali. Hann hafi þar sagt ástandið skelfilegt og það stefndi allt í verðsprengju á húsnæðismarkaði.

Í fréttinni segir að á Íslandi sé mannfjölgun sem nemi um þúsund manns á mánuði sem augljóslega hafi áhrif á eftirspurnina. En henni sé haldið niðri með handafli af Seðlabankanum. Auk þess sem bankarnir reisa skorður með greiðslumati. Og framboðshliðin sé ekki sterk heldur: „Þrjú þúsund íbúðir koma inn á markaðinn á ári en stefnt var að því að þær yrðu fjögur þúsund. Vextir eru háir, laun eru há, byggingavörur berast ekki, sölutími hefur lengst,“ segir Sigurður. 

70% samdráttur á þeim verkefnum sem er að fara í gang

Þá kemur fram að ríkið lækkaði endurgreiðslur á virðisaukaskatti sem hafi aukið kostnaðinn. „Um mitt þetta ár hafði byggingakostnaður hækkað um ríflega 7 milljónir sem er yfir 10%. Þetta letur aðila til að fara í ný verkefni.“ Sigurður segir þetta koma fram með skýrum hætti í nýjum tölum frá húsnæðis- og mannvirkjastofnun. „Núna á síðustu sex mánuðum var byrjað á byggingum á um 700 íbúðum sem er um 30% af því sem var fyrir ári. Við erum að sjá fram á 70% samdráttur á þeim verkefnum sem er að fara í gang. Það er að draga úr innflutningi á byggingarefni og við sjáum það á kanarífuglinum í kolanámunni sem eru arkítektastofur og verkfræðingar, sem eru að hanna íbúðarhúsnæði; þar er veltan að dragast saman.“

Ekki annað í stöðunni en að byggja meira

Í fréttinni segir að allt bendi í sömu átt. Það verði minna byggt núna á næstu árum, það komi minna inn á markaðinn, sem magni upp vandann sem sé til staðar. „Það þarf íbúðir í dag en það tekur tvö ár eða meira að byggja þær.“ Þegar Sigurður er spurður hvort minna framboð en sívaxandi eftirspurn þýði verðsprengja svarar hann: „Það þýðir að verð mun hækka þegar aðstæður skapast. Seðlabankinn heldur markaðnum niðri með handafli og það er staða sem gengur ekki til lengdar. Það er ekkert annað í stöðunni við þessar aðstæður en byggja meira.“

Vísir, 23. október 2023.

Stöð 2/Vísir, 23. október 2023.