Fréttasafn



12. nóv. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Seðlabankinn rýmki lánþegaskilyrði í ljósi stöðunnar

Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í Viðskiptablaðinu að óvissan sem ríkt hafi á íbúðalánamarkaði frá því að dómur Hæstaréttar féll í vaxtamálinu hafi líkt og gefur að skilja haft neikvæð áhrif á íbúðamarkaðinn í heild sinni. Það sé því fagnaðarefni að Seðlabankinn hafi í lok síðustu viku birt vexti byggða á ávöxtunarkröfu ríkisskuldabréfa sem hægt sé að nota sem viðmið í íbúðalánum. „Það ýtti við Íslandsbanka og Arion banka sem stigu fljótlega í kjölfarið fram með nýtt lánaframboð. Óvissu sem skapaðist í kjölfar dómsins hefur því að nokkru leyti verið eytt. Eftir standa þó töluverður fjöldi lánveitenda sem eru enn að ráða ráðum sínum og átta sig á stöðunni.“

Ingólfur segir meðal annars í Viðskiptablaðinu að þessi staða á íbúðamarkaði, til viðbótar við ýmis merki um að hagkerfið sé að kólna hratt, gefi peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands fullt tilefni til að lækka stýrivexti á vaxtaákvörðunarfundi nefndarinnar í næstu viku og að Seðlabankinn hljóti einnig að íhuga að rýmka lánþegaskilyrði í ljósi stöðunnar sem ríkir á íbúðamarkaði. „Þessi skilyrði takmarka mjög hversu margir geta stigið skrefið inn á þennan markað. Þau halda einnig uppi ákveðnum þrýstingi á leiguverð, sem er sérlega óhentugt við núverandi aðstæður. Ég sé ekki forsendur fyrir því út frá fjármálastöðugleika eða öðru slíku að halda lánþegaskilyrðunum þetta ströngum.“

Viðskiptablaðið, 12. nóvember 2025.

Vidskiptabladid-12-11-2025_2