Seðlabankinn skoðar ekki framvindustig íbúða
Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI, segir í frétt Viðskiptablaðsins að Seðlabankinn missi marks með því að skoða ekki framvindustig íbúða og fólksfjölgun en í riti Seðlabankans, Fjármálastöðugleiki, segir að umsvif á byggingarmarkaði séu enn mikil og nýjum fullbyggðum íbúðum sem koma inn á markaðinn gæti fjölgað á milli ára m. v. fjölda nýbygginga í september. „Þeir eru að reikna með því að það komi 400 fleiri fullbúnar íbúðir inn á markaðinn á þessu ári en HMS spáði fyrir um. Það færir þá heildarfjölda íbúða rétt yfir 3.200 á árinu. Við erum ekki að rengja það og fögnum því ef svo sé en þrátt fyrir aukninguna er fjöldi fullbúinna íbúða sem er að koma inn á markaðinn í ár ekki í takti við fólksfjölgunina í landinu. Við erum með fólksfjölgun sem er sirka þúsund á mánuði það sem af er ári og því stefnir í að fólksfjölgun í ár verði kringum 12.000 sem er viðlíka og í fyrra. Við verðum þá með sömu stöðu og í fyrra, það eru fjórir nýir íbúar um hverja nýja íbúð. Almennt er talað um að það hlutfall ætti að vera mun lægra eða um 2-2,5 nýir íbúar um hverja nýja íbúð. Fjöldi nýrra íbúða er því ekki að mæta þörf.“
Einnig segir Ingólfur í frétt Viðskiptablaðsins að á sama tíma og verið sé að byggja undir þörf sé útlit fyrir að það dragi úr fjölda fullbúinna íbúða. „Í þessu sambandi erum við að sjá að það er að draga saman á fyrstu byggingarstigum. Mér finnst Seðlabankinn missa aðeins af í þessari umræðu. Í byggingarferlinu þar sem arkitektar og verkfræðingarnir eru fremstir erum við að greina samdrátt. Í því samhengi erum við að sjá að veltan er að dragast saman. Þetta er vísbending um hvert heildaruppbygging íbúða stefnir í á næstunni.“
Hér er hægt að nálgast fréttina í heild sinni.
Viðskiptablaðið, 22. september 2023.