Fréttasafn25. sep. 2023 Almennar fréttir Mannvirki Starfsumhverfi

Seðlabankinn skoðar ekki framvindustig íbúða

Ingólfur Bender, aðal­hag­fræðingur SI, segir í frétt Viðskiptablaðsins að Seðla­bankinn missi marks með því að skoða ekki fram­vindu­stig í­búða og fólks­fjölgun en í riti Seðlabankans, Fjár­mála­stöðug­leiki, segir að um­svif á byggingar­markaði séu enn mikil og nýjum full­byggðum í­búðum sem koma inn á markaðinn gæti fjölgað á milli ára m. v. fjölda ný­bygginga í septem­ber. „Þeir eru að reikna með því að það komi 400 fleiri full­búnar í­búðir inn á markaðinn á þessu ári en HMS spáði fyrir um. Það færir þá heildar­fjölda í­búða rétt yfir 3.200 á árinu. Við erum ekki að rengja það og fögnum því ef svo sé en þrátt fyrir aukninguna er fjöldi full­búinna í­búða sem er að koma inn á markaðinn í ár ekki í takti við fólks­fjölgunina í landinu. Við erum með fólks­fjölgun sem er sirka þúsund á mánuði það sem af er ári og því stefnir í að fólks­fjölgun í ár verði kringum 12.000 sem er við­líka og í fyrra. Við verðum þá með sömu stöðu og í fyrra, það eru fjórir nýir í­búar um hverja nýja íbúð. Al­mennt er talað um að það hlut­fall ætti að vera mun lægra eða um 2-2,5 nýir í­búar um hverja nýja íbúð. Fjöldi nýrra í­búða er því ekki að mæta þörf.“

Einnig segir Ingólfur í frétt Viðskiptablaðsins að á sama tíma og verið sé að byggja undir þörf sé út­lit fyrir að það dragi úr fjölda full­búinna í­búða. „Í þessu sam­bandi erum við að sjá að það er að draga saman á fyrstu byggingar­stigum. Mér finnst Seðla­bankinn missa að­eins af í þessari um­ræðu. Í byggingar­ferlinu þar sem arki­tektar og verk­fræðingarnir eru fremstir erum við að greina sam­drátt. Í því sam­hengi erum við að sjá að veltan er að dragast saman. Þetta er vís­bending um hvert heildar­upp­bygging í­búða stefnir í á næstunni.“

Hér er hægt að nálgast fréttina í heild sinni.

Viðskiptablaðið, 22. september 2023.