Fréttasafn11. nóv. 2021 Almennar fréttir Félag ráðgjafarverkfræðinga Mannvirki Starfsumhverfi

Sérfræðiþekking lokist inni með innhýsingu hins opinbera

Málþing Félags ráðgjafarverkfræðinga og deild stjórnenda og sjálfstætt starfandi hjá Verkfræðingafélagi Íslands um innhýsingu opinberra aðila á verkfræðiþjónustu fór fram á Hilton Nordica í gær.

Páll Á. Jónsson, formaður SVFÍ, flutti ávarp í upphafi málþings. Hann greindi frá því að tilgangur málþingsins væri m.a. að ræða þá þróun sem átt hefur sér stað á sl. áratugum hvað varðar innhýsingu opinberra aðila á verkfræðiþjónustu. Hann nefndi að hætt sé við því að sú séfræðiþekking sem myndast innan opinberra stofnana eða fyrirtækja lokist inni og nýtist ekki öðrum í samfélaginu. Því sé mikilvægt að farið sé varlega í að innvista verkfræðiþekkingu eða annarri sérþekkingu sem getur nýst öðrum en viðkomandi stofnun.

Á myndinni hér fyrir ofan eru, talið frá vinstri, Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ, Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá Eflu, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar,  Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, og Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg.

Sérfræðingum hjá hinu opinbera fjölgað frá 2015

Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá Eflu, sagði frá niðurstöðum meistararitgerðar sinnar um málefnið, þ.e. innhýsingu opinberra aðila á verkfræðiþjónustu. Það hefur sýnt sig að hið opinbera er að sinna verkefnum á sviði verkfræði sem markaðurinn er í stakk búinn til að sinna. Rekstrarafkoma verkfræðistofanna hér á landi dalaði frá 2016-2019. Ólafur velti því upp hvort það gæti tengst setningu laga um opinber innkaup nr. 120/2016. Hann fór yfir mikilvægi þess að samfélagið héldi úti öflugum ráðgjafamarkaði en þróunin hefur verið sú að sérfræðingum sem starfa hjá opinberum aðilum hefur fjölgað talsvert frá 2015. Ólafur sagði frá því að hann hafi tekið eigindleg viðtöl við opinbera innkaupaaðila auk þess sem hann ræddi við fulltrúa seljenda. Helstu niðurstöður voru m.a. þær að það skorti þekkingu á lögum um opinber innkaup varðandi hvernig er hægt að klæðskerasníða innkaup að þörfum verkkaupa. Einnig að viðmiðunarfjárhæðir laganna séu of lágar, bjóði ekki upp á nægjanlegan sveigjanleika. Oft á tíðum setji þó opinberir aðilar sér strangari viðmið en lögin heimila. Hann nefndi einnig að minni aðilar væru oft í erfiðari stöðu við að koma sínum málum í góðan farveg hvað innkaupin varðar og því sé hvati þar til að innhýsa. Ánægjulegt var þó að opinberir kaupendur almennt gerðu sér grein fyrir þeirri samfélagslegu ábyrgð sem felst í kaupum á ráðgjafaþjónustu. Aðilar gera sér grein fyrir þeirri win-win stöðu sem öflugur ráðgjafarmarkaður er, þ.e. þar sem sérfræðiþekking eykst og hægt er að styrkja margar stoðir víða með þeirri þekkingu. Í ritgerðinni voru lagðar fram tillögur að úrbótum, m.a. að opinberir aðilar komi sér upp skýrri stefnu í þessum efnum, að komið yrði upp virku samtali hagaðila á markaði um innkaupamál og að margir stórir opinberir aðilar þurfi að auka sveigjanleika sinn í innkaupum á verkfræðiráðgjöf sem hentar þeim. Fleiri mættu horfa á að bjóða út rammasamninga þar sem verð er tekið út úr mati á tilboðum. Að lokum nefndi Ólafur að Ríkiskaup hafi áður verið með rammasamning fyrir minni opinbera aðila sem ekki höfðu tök á að reka eigin samninga en sá samningur hefur ekki verið í gildi í nokkurn tíma. Þetta getur ýtt undir innhýsingu að mati Ólafs.

Hér er hægt að nálgast glærur Ólafs frá fundinum.

Hið opinbera greiðir hærri laun en verkfræðistofurnar

Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga, fór yfir að tilfærsla sérfræðinga frá einkamarkaði til opinberra aðila væri staðreynd. Hann sagði frá því að þessi þróun sé ekki í gangi í nágrannalöndum okkar. Hann varpaði því upp m.a. þeirri spurningu hvort aukin innhýsing væri ný stefna hins opinbera hér á landi. Auk þess velti hann því upp hvort því fylgi hagræðing að innvista. Reynir fór yfir hvernig verkfræðistofurnar virka sem rekstrareiningar og fór yfir sundurliðun starfsmanna- og rekstrarkostnaðar. Margir þættir mynda þessa kostnaðarliði. Þá velti hann upp hverju munar á að innhýsa eða útvista. Reynir tók fram að hans mat væri að hið opinbera væri að greiða hærri laun en verkfræðistofurnar í dag. Hann fór yfir hvaða kostnaðarliðir væru lægri að hans mati ef útvistað er heldur en innvistað og sömuleiðis hvar væri sparað með því að innvista. Reynir nefndi að niðurstaðan væri skýr að hans mati, þ.e. að verkfræðistörf væru í dag mun dýrari innan opinberra aðila en hjá verkfræðistofunum. Sú hugmynd að aðkeypt verkfræðiþjónusta væri mun dýrari sé byggð á misskilningi. Greina megi þá hugsunarvillu hjá kjörnum fulltrúum og stjórnendum hjá opinberum aðilum að verið sé að bera saman mánaðarlaun annars vegar og gjaldskrá stofanna hins vegar. Þá nefndi hann að heilbrigð samkeppni í greininni leiði væntanlega til lægri verða og aukinna gæða. Í erindinu velti hann upp hvar er heppilegast að hafa sérfræðingana okkar. Við erum örþjóð og ættum því enn frekar en aðrar þjóðir að huga að því hvar við staðsetjum sérfræðingana okkar. Á almenna markaðnum eru sérfræðingarnir okkar aðgengilegir öllum. Við þurfum að hugsa sem teymi þegar við veltum þessum málum fyrir okkur. Þegar sveiflur verða í verkefnastöðu er mikilvægt að sérfræðingarnir séu ekki staðsettir þar sem erfitt er að fækka fólki. Verkfræðistofurnar svara sveiflum með því að leita tækifæra annars staðar, þ.e. á erlendum mörkuðum. Útflutningur verkfræðistofa skapar mikilvægar gjaldeyristekjur og dreifir þekkingu. Einnig velti Reynir upp hvaða drifkraftar stuðli að innhýsingu. Þar telur hann að ranghugmyndin um að aðkeypt þjónusta sé dýrari spili inn í. Hann velti einnig upp hvort núverandi fyrirkomulag innkaupa spili inn í því það útheimtir mikla handavinnu hjá öllum bjóðendum og kaupanda og tefur verkin í tíma eins og verið er að vinna með kerfið í dag. Að lokum velti Reynir upp hvað væri til ráða. Hann kallar eftir að hið opinbera marki sér stefnu um að úthýsa sem allra mest, það sé þjóðhagslega hagkvæmt. Einnig þurfi að bæta fyrirkomulag innkaupa á þjónustu. Lausnirnar séu að finna hjá nágrannaþjóðum okkar. Í núverandi kerfi séu gæðin lágt metin og verðið látið ráða of miklu. Auka þarf kostnaðarvitund hjá opinberum aðilum. Kanna þarf raunkostnað og mæla framleiðni.

Hér er hægt að nálgast glærur Reynis frá fundinum.

Verð er ekki eini mælikvarðinn á gæði

Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna, fjallaði um vegferð Veitna síðastliðin ár. Síðan 2019 hefur sú þróun sem Ólafur Ágúst kom inn á gengið til baka. Hann ræddi að ekki væri rétt að hans mati að stilla innhýsingu vs. úthýsingu upp líkt og vinstri/hægri í pólitík. Vegferð Veitna gengur út á að hámarka árangur, skilvirkni og gera það sem er rétt fyrir viðskiptavini, hagsmunaaðila, eigendur og starfsfólk Veitna. Ekki sé gott að vera með einstefnu í eina átt. Það leiði til þess að árangurinn og skilvirknin verði minni. Hann nefndi að það er rangt að horfa eingöngu á verð sem mælikvarða á gæði. Veitur hafa sett inn í útboðsskilmála að ef aðilar velja að nota umhverfisvænt eldsneyti veiti það stig í útboðum. Sömuleiðis eru þeir sem hafa hjá sér iðnnema að fara að fá viðbótarstig í útboðum hjá Veitum. Veitur hafa átt samtal við FRV enda telja þau hjá Veitum mjög mikilvægt að eiga samtal við markaðinn um hvað sé mikilvægast og hvað sé sanngjarnt í útboðum. Eftir það samtal hafa Veitur verið í ákveðinni vinnu með ráðgjöfum sem eru að sérhæfa sig í að ráða stjórnendur og sérfræðinga í opinbera geiranum. Horfa þarf á samskiptahæfni, lausnamiðaða hugsun o.fl. þegar kemur að því að ráða stjórnendur. Hið opinbera og markaðurinn þurfa að fara í þá vegferð að vera ófeimin að feta þennan stíg saman. Gestur nefndi að það væri mikil áhættufælni innan opinbera geirans hvað varðar innkaup en það sé eitthvað sem allir beri ábyrgð á saman. Gestur tók fram að eftir áramót ætli Veitur að bjóða út þjónustu þar sem verð verður langt frá því að vera eini mælikvarðinn á gæði. Þetta verði gert í samráði við markaðinn.

Mikilvægt að þekking lokist ekki inni á stofnunum sem getur hamlað nýsköpun

Að loknum erindum voru pallborðsumræður. Auk frummælenda áttu sæti í pallborði Bergþóra Þorkelsdóttir, forstjóri Vegagerðarinnar, Guðrún Ingvarsdóttir, forstjóri Framkvæmdasýslunnar – Ríkiseigna, og Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg. Tíðrætt var að gæði séu ekki metin að verðleikum, þ.e. verðin ráði of miklu við val á tilboðum í opinberum útboðum. Komið var inn á að kærumál séu áhættuþáttur, þ.e. að verkkaupar óttist kærumál auk þess sem rætt var um mikilvægi þess að styrkja nýsköpun á markaðnum og að þekking lokist ekki inni á stofnunum. Þekkingarmiðlun meðal markaðarins og verkkaupa sé mikilvæg með tilliti til nýsköpunar. Allir voru sammála um að samtalið um málefnið væri mikilvægt og þyrfti að eiga sér stað áfram. 

IMG_0912_1Svana Helen Björnsdóttir, formaður VFÍ, var fundarstjóri.

IMG_0913_1Ólafur Ágúst Ingason, sviðsstjóri bygginga hjá Eflu.

IMG_0919_1Reynir Sævarsson, formaður Félags ráðgjafarverkfræðinga.

IMG_0924_1Gestur Pétursson, framkvæmdastjóri Veitna.

IMG_0920_1

IMG_0938_1

Frettabladid.is, 11. nóvember 2021.