Fréttasafn



22. des. 2017 Almennar fréttir

SI áforma að innleiða samskiptaviðmið á nýju ári

Samtök iðnaðarins munu innleiða á nýju ári samkeppnisréttarstefnu og samskiptaviðmið fyrir öll undirsamtök og önnur aðildarfélög þar sem markmiðið er að tryggja að félagsmenn skiptist ekki á upplýsingum sem fyrirtæki gætu nýtt sér til framdráttar í samkeppni á markaði. Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins í dag þar sem rætt er við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir að Samtök iðnaðarins leggi áherslu á að félagsmenn fari að lögum. „Samtök iðnaðarins eru hagsmunasamtök sem vinna að umbótum á starfsumhverfi fyrirtækja. Samfélagið allt hefur hag af þeirri vinnu því hagur samfélagsins er samtvinnaður við hag fyrirtækja. Hingað koma félagsmenn saman til fundar og ræða umgjörð markaðarins og ytra umhverfi, svo sem lög og regluverk, mennta- og fræðslumál, innviði og nýsköpun. Hér er ekki rætt um hvernig fyrirtæki geti náð yfirráðum á markaði. Það er ekki tilgangur samtakanna.“

Hann segir jafnframt í fréttinni að samtökin séu afar meðvituð um samkeppnismál í starfsemi samtakanna.„Okkur er annt um að þau mál séu í lagi hjá okkur, sem ég er fullviss um að þau séu.“ 

Morgunblaðið, 22. desember 2017.