Fréttasafn



13. des. 2019 Almennar fréttir Menntun

SI áfram styrktaraðili Team Spark

Samtök iðnaðarins hafa undanfarin ár verið meðal stoltra styrktaraðila Team Spark og árið í ár er þar engin undantekning. Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Salvör Ísberg, fjármálastjóri Team Spark, skrifuðu í dag undir áframhaldandi samstarf á skrifstofu Samtaka iðnaðarins. Team Spark er kappaksturslið háskólanema sem smíða kappakstursbíl og keppa á honum erlendis.

Team Spark hefur komið að ýmsum verkefnum innan SI, m.a. í tengslum við GERT verkefnið sem hefur það að markmiði að efla áhuga nemenda á raunvísindum og tækni ásamt námi og störfum sem því tengist. Þá hafa liðsmenn haldið kynningar í grunnskólum landsins, kynnt námið sitt og hvernig það tengist hönnun bílsins. 

Samtök iðnaðarins styrktu í vor flutning á eldra módeli af Team Spark bílnum til varðveislu í Verkmenntaskólanum á Akureyri og mun það auðvelda grunnskólakynningarnar á Norðurlandi til muna. Markmið kynninganna er að kynda undir áhuga á raunvísindum, tækni og verkmenntun, sem vonast er til að skili sér út í atvinnulífið. Nemendurnir í Team Spark liðinu koma úr hinum ýmsu greinum, s.s. vélaverkfræði, iðnaðarverkfræði, rafmagns- og tölvuverkfræði, viðskiptafræði, stjórnmálafræði og úr Tækniskólanum.