Fréttasafn



1. sep. 2025 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

SI fagna áformum um sameiningu Skipulagsstofnunar og HMS

Samtök iðnaðarins (SI) hafa skilað inn umsögn um áform um sameiningu Skipulagsstofnunar og Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Samtökin fagna áformunum og telja þau mikilvægt skref í átt að einföldunar stjórnsýslu og skilvirkari ferlum við uppbyggingu mannvirkja. Í umsögninni er þó áréttað að tryggja verði að dýrmæt sérfræðiþekking glatist ekki við breytingarnar og bent á frekari tækifæri til umbóta.

Í umsögn sinni til félags- og húsnæðismálaráðuneytisins lýsa Samtök iðnaðarins yfir stuðningi við þau markmið sem stefnt er að með sameiningu stofnananna tveggja. Samtökin hafa lengi bent á að regluverk og stjórnsýsla skipulags- og mannvirkjamála hér á landi sé of flókið, meðal annars vegna þess hve margir aðilar koma að ferlinu.

Sameining er því talin geta leitt til aukinnar skilvirkni, betri samlegðar í þjónustu og færri flækjustiga fyrir fyrirtæki og almenning. Samtökin sjá fjölmörg tækifæri fólgin í sameiningunni, ekki síst með samþættingu stafrænna lausna sem gætu mótað einn, heildstæðan feril og afgreiðslustað fyrir viðskiptavini. Slík þróun myndi draga verulega úr samfélagslegum kostnaði við uppbyggingarferli, öllum til hagsbóta.

Sérfræðiþekkingu verður að viðhalda

Þrátt fyrir jákvæðni í garð áformanna leggja samtökin ríka áherslu á að fyrirhuguð hagræðing megi ekki koma niður á þeirri sérfræðiþekkingu sem býr innan beggja stofnana. Brýnt er að huga vel að því í nýju skipuriti að sú reynsla og þekking sem hefur byggst upp fái að njóta sín áfram.

Tækifæri til frekari einföldunar

Að lokum benda samtökin á að samhliða sameiningunni sé kjörið tækifæri fyrir stjórnvöld að taka afstöðu til frekari einföldunar á leyfisveitingakerfinu. Þar er sérstaklega horft til þess að Umhverfis- og orkustofnun gæti farið með forræði yfir málsmeðferð mats á umhverfisáhrifum. Slíkt væri í takt við hugmyndafræði um „allt á einum stað“ (e. one-stop-shop) sem myndi stytta boðleiðir og einfalda ferla við undirbúning framkvæmda til muna.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.