Fréttasafn



3. okt. 2025 Almennar fréttir Efnahagsmál Fréttatilkynning

SI fagna áherslu á stöðugleika en vara við skorti á fjárfestingu

Samtök iðnaðarins, SI, hafa skilað fjárlaganefnd Alþingis umsögn um frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2026. Þar koma fram ítarlegar athugasemdir og ábendingar um nauðsyn þess að ríkisfjármálin stuðli að stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi fyrir íslenskt atvinnulíf. SI fagna ýmsum áherslum í frumvarpinu en telja ljóst að grípa þurfi til frekari aðgerða til að bæta innviði, efla menntun og tryggja áframhaldandi vöxt nýsköpunar í landinu.

Ábyrg hagstjórn og fyrirsjáanleiki mikilvægur

SI fagna þeirri stefnu sem endurspeglast í fjárlagafrumvarpinu og miðar að auknum stöðugleika og aðhaldi í ríkisfjármálum. Slík stefna er samkvæmt SI forsenda lægri verðbólgu og vaxta, sem skiptir fyrirtæki og heimili miklu. Samtökin lýsa þó vonbrigðum með að stærri hluti afkomubata ríkissjóðs vegna vænst hagvaxtar næsta árs sé ekki nýttur til að skila fjárlögum með afgangi og þannig stuðla að meiri stöðugleika og sterkari efnahagslegum viðnámsþrótti með lækkun skulda ríkissjóðs.

Jafnframt fagna SI því að engar nýjar almennar skattahækkanir séu í frumvarpinu. Samkvæmt samtökunum eru álögur á íslenskt atvinnulíf miklar í alþjóðlegum samanburði og háir skattar dragi úr fjárfestingum, framleiðni og verðmætasköpun. Sérstaklega vekja SI athygli á því að skattspor iðnaðarins sé stærst meðal útflutningsgreina, eða 220 milljarðar króna árið 2023 án vsk.

Nýsköpun og hugverkaiðnaður lykilatriði

SI leggja mikla áherslu á að festa í sessi skattahvata til rannsókna og þróunar (R&Þ). Reynslan sýnir að hvatarnir virka en hugverkaiðnaður er orðin fjórða stoð útflutnings og sú stoð sem vaxið hefur hraðast á undanförnum árum. Samtökin fagna því að í frumvarpinu komi skýrt fram að hvatar vegna R&Þ verði festir í sessi en með því geta fyrirtækin gert langtímaáætlanir og trúverðugleiki og stöðugleiki gagnvart fjárfestum eykst. Hvatarnir eru eitt helsta tæki stjórnvalda til þess að auka fjárfestingar í R&Þ. Það hlutfall er nú 2,7% af vergri landsframleiðslu en nýlega á fundi um atvinnustefnu kom fram í máli forsætisráðher að markmiðið væri að hækka það hlutfall upp í 3,5% árið 2035.

Húsnæðismarkaður þarf öflugri stuðning

SI eru ánægð með að í frumvarpinu sé lögð áhersla á að ná jafnvægi á húsnæðismarkaði. Alvarlegt ójafnvægi hefur verið á íbúðamarkaði þar sem skortur á íbúðum sem mætir þörfum landsmanna hefur komið fram í mikilli og þrálátri verðbólgu og háum vöxtum. Leggja þarf áherslu á aðgerðir sem ýta undir framboðshlið markaðarins og stöðugt starfsumhverfi byggingariðnaðarins.

SI harma að í frumvarpinu er ekki að finna neinar tillögur um hækkun á VSK-endurgreiðslu vegna vinnu manna á verkstað en aðgerðin myndi efla framboðshlið íbúðamarkaðarins og skapa betra jafnvægi markaðarins. Samtökin hvetja stjórnvöld til að endurskoða þá afstöðu sína.

Samgöngufjárfestingar duga ekki til

Samtökin fagna þeirri auknu fjárfestingu og viðhaldi í vegakerfinu sem gert er ráð fyrir í frumvarpinu en vara við því að aukningin dugir ekki til að vinna á þeirri miklu innviðaskuld sem hefur safnast upp. Ástand vegakerfisins er mjög slæmt og uppbygging þess hefur ekki verið í samræmi við aukna umferð. SI vísa til nýrrar skýrslu SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga sem sýnir að viðhaldsskuld vegakerfisins nemi allt að 290 milljörðum króna og ástandseinkunn vegakerfisins er lægst allra innviða landsins. Vanræksla við uppbyggingu og viðhald innviða hefur bæði fjárhagslegar og samfélagslegar afleiðingar, m.a. fyrir öryggi, lífsgæði, framleiðni og búsetu.

SI styðja hugmyndir um sérstakt innviðafélag sem annist fjármögnun stórra samgönguframkvæmda utan A-hluta ríkisfjármála og benda á að slíkar lausnir hafi reynst vel í öðrum innviðagreinum.

Ráðast þarf í nauðsynlega uppbyggingu verkmenntaskóla

Samtökin lýsa yfir áhyggjum af því að fresta eigi nauðsynlegri uppbyggingu verkmenntaskóla. Á sama tíma og stjórnvöld segjast stefna að því að auka hlutfall nemenda í starfs- og tækninámi er aðkallandi fjárfesting í aðstöðu sett á ís. Skortur á húsnæði hefur verið ein helsta ástæða þess að árlega hefur allt að 1.000 umsóknum í iðn- og tækninám verið hafnað, á sama tíma og atvinnulífið glímir við viðvarandi færniskort á þessu sviði.

Hér er hægt að nálgast umsögnina. 


mbl.is, 3. október 2025.