Fréttasafn



1. júl. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki

SI fagna fjárfestingarátaki í samgönguáætlun

Samtök iðnaðarins fagna því fjárfestingarátaki í samgönguuppbyggingu sem endurspeglast í nýsamþykktri þingsályktun um samgönguáætlun til næstu ára. Taka samtökin heilshugar undir það sem kemur fram í áliti meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar um áætlunina en þar segir að á samdráttartímum eru kjöraðstæður til innviðauppbyggingar þar sem mikilvægt er að hið opinbera dragi eftir fremsta megni úr fjárfestingarslaka með því að ráðast í mannaflsfrekar og arðbærar framkvæmdir og fjárfestingar. Með því verður einnig byggt undir framfarir í samfélags- og efnahagsmálum í landinu. Stjórnvöld áætla að um 8.700 störf verða til í tengslum við framkvæmdir vegna samgönguáætlunar og að framkvæmdir á sviði samgangna verði 900 ma.kr. til næstu 15 ára.

Ný lög um samvinnuverkefni í samgönguframkvæmdum er ánægjuefni

Samtök iðnaðarins lýsa einnig yfir ánægju með samvinnuverkefni um samgönguframkvæmdir í nýsamþykktum lögum. Með lögunum eru stjórnvöld að opna á þá leið að nýta samvinnuleiðina við vegaframkvæmdir og auka þannig líkur á því að stór verkefni á sviði innviða komist í framkvæmd. Að mati Samtaka iðnaðarins er það ánægjuefni að stjórnvöld ætli að nýta framtak einkamarkaðar í meiri mæli við að auka innviðaframkvæmdir og draga þannig úr þeirri miklu uppsöfnuðu þörf sem er fyrir framkvæmdir á þessu sviði. Líkt og kemur fram í umsögn samtakanna um frumvarpið opnar samvinnuleiðin við innviðauppbyggingu á fjárfestingu óháð stöðu ríkisfjármála hverju sinni og virkjar kosti einkaframtaks m.t.t. nýsköpunar, kostnaðarlágmörkunar og sveigjanleika.

Mótvægi við umtalsverðan samdrátt í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð

Umtalsverður samdráttur er nú í byggingastarfsemi og mannvirkjagerð. Dregið hefur verulega úr fjárfestingu atvinnuveganna en einnig er umtalsverður samdráttur í íbúðafjárfestingum, sérstaklega á fyrstu byggingastigum. Fjöldi starfandi í greininni hefur dregist verulega saman og hefur atvinnuleysi meðal iðnaðarmanna á þessu sviði aukist. Umtalsverð vannýtt framleiðslugeta er því í greininni. Í ljósi þessarar stöðu skapa auknar innviðaframkvæmdir mikilvægt mótvægi við þessari djúpu niðursveiflu.

Fjoldi-starfandi-i-byggingarstarfsemi-og-mannvirkjagerd

Frekara fjárfestingarátak hugsanlega kynnt í haust

Stjórnvöld hafa á síðustu mánuðum gripið til margvíslegra hagstjórnaraðgerða til að skapa hagkerfinu nauðsynlega viðspyrnu í þeirri djúpu efnahagslægð sem fyrirtæki og heimili takast nú á við. Auknar fjárfestingar í innviðum hafa verið hluti af þeim aðgerðum. Með fjárfestingu í innviðum er fjárfest í hagvexti framtíðarinnar, samkeppnishæfni þjóðarbúsins er styrkt og bæði sköpuð störf og verðmæti.

Í ljósi mikilla uppsafnaðra þarfa fyrir viðhald og nýfjárfestingar á sviði samgangna og þess að verkefni á þessu sviði skapa viðspyrnu, auka samkeppnishæfni, skapa verðmæti og störf í þeirri djúpu efnahagslægð sem fyrirtæki og heimili glíma við er full þörf á að mati Samtaka iðnaðarins að ráðast í fleiri verkefni á þessu sviði. Því fagna samtökin því sem kom fram í umræðum um samgönguáætlunina á Alþingi að stjórnvöld hafi uppi áform um frekara fjárfestingarátak á tímabilinu 2021-2023 fyrir allt að 60 milljarða króna sem hugsanlega verður kynnt í haust í tengslum við ríkisfjármálaáætlun. Koma þar til greina ýmis verkefni í samgönguinnviðum sem hafa verið í undirbúningi, m.a. í vegagerð, og verður hægt að hrinda í framkvæmd næsta fyrirvaralítið.