Fréttasafn6. jan. 2023 Almennar fréttir Innviðir Mannvirki Starfsumhverfi

SI fagna jákvæðri stefnubreytingu Reykjavíkurborgar

Samtök iðnaðarins hafa um árabil talað fyrir því að framboð á húsnæði sé í takt við þarfir almennings. Of fáar íbúðir voru byggðar á síðasta áratug. Það ójafnvægi sem verið hefur á húsnæðismarkaði er landsmönnum kostnaðarsamt og birtist meðal annars í verðbólgu og hærri vöxtum. Samtök iðnaðarins fagna því samkomulagi stjórnvalda og Reykjavíkurborgar um aukið framboð íbúðarhúsnæðis í Reykjavík og þeim metnaði borgaryfirvalda að vera fyrsta sveitarfélag landsins til að gera slíkt samkomulag. Þá er þetta hvatning fyrir önnur sveitarfélög til þess að gera slíka samninga við ríkið. Samtök iðnaðarins telja samkomulagið fela í sér jákvæða stefnubreytingu borgaryfirvalda sem felst meðal annars í aukinni uppbyggingu, að lóðir séu ávallt tiltækar, að ferli verði einfölduð og afgreiðslu hraðað.

Innviðaráðherra hefur sýnt forystu varðandi húsnæðisuppbyggingu með þeirri yfirlýsingu sinni að byggðar verði 35 þúsund íbúðir á tíu ára tímabili og fylgt því eftir með rammasamningi við Samband íslenskra sveitarfélaga og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun. Fyrsti samningurinn við sveitarfélag hefur verið undirritaður sem fyrr segir við Reykjavíkurborg. Þetta er í takti við væntingar Samtaka iðnaðarins um að með stofnun innviðaráðuneytis, þar sem húsnæðis-, byggingar- og skipulagsmál eru öll a sömu hendi, þá verði skýr ábyrgð stjórnvalda á húsnæðismálum.

Markmið samkomulagsins er að byggja 16 þúsund íbúðir á næstu 10 árum, þar af 2 þúsund íbúðir á ári næstu 5 árin. Þetta er að mati Samtaka iðnaðarins nauðsynlegt skref í átt að því að tryggja að framboð af nýjum íbúðum mæti til lengri tíma íbúðaþörfum fólks. Með þessu samkomulagi borgarinnar við stjórnvöld er verið að stíga mikilvægt skref til að búa til fjölbreytt framboð íbúða sem mætir ólíkum þörfum íbúa. Einnig er með þessu rennt stoðum undir stöðugra framboð nýrra íbúða á svæðinu en verið hefur síðustu ár.

Í samkomulaginu eru markmið um að 40% íbúða sem byggðar eru á lóðum og löndum í eigu ríkis og sveitarfélaga séu hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði. Telja samtökin að hér skorti á að lögð verði áhersla á að lækka verð á íbúðum sem ekki eru skilgreindar sem hagkvæmar, m.a. með því að endurskoða gjaldtöku vegna íbúðauppbyggingar og kvaðir í samningsskilmálum við verktaka sem hækka byggingarkostnað og þar með verð á hinum 60% íbúðanna. Það er mat Samtaka iðnaðarins að borgaryfirvöld geti gert margt til að auka hagkvæmni þeirra íbúða og hvetja samtökin borgina til að taka nauðsynleg skref í þá átt.