Fréttasafn



18. maí 2016 Almennar fréttir Lögfræðileg málefni

SI fagna nýju frumvarpi sem liðkar fyrir komu erlends vinnuafls til landsins

Samtök iðnaðarins fagna nýju frumvarpi til laga um útlendinga og breytingu á lögum um atvinnuréttindi þeirra en samtökin hafa talað fyrir breytingum á útlendingalöggjöfinni út frá sjónarhóli atvinnulífsins sem hafa mikla hagsmuni af því að nýta krafta erlends vinnuafls, hvort heldur eru sérfræðingar eða ófaglærðir. Samtök iðnaðarins telja að í frumvarpinu felist mikilvægar breytingar sem liðka muni fyrir komu erlends vinnuafls til landsins auk þess sem frumvarpið leiðir til meiri skilvirkni og sveigjanleika. Á Íslandi er að byggjast upp öflugur iðnaður þar sem atvinnutækifæri eru mikil fyrir innlenda sem erlenda starfsmenn. Iðnaðurinn er að vaxa hratt og því fyrirsjáanlegt að íslenskt starfsfólk muni ekki geta mannað þær stöður til framtíðar.

Að mati Samtaka iðnaðarins er það til mikillar eftirbreytni hvernig staðið var að undirbúningi frumvarpsins með samstarfi þverpólítískrar þingmannanefndar til að endurskoða lögin þar sem varð til samstarf milli þingmanna, embættismanna, fræðimanna, stofnana og samtaka auk þess sem leitað var til fjölmargra sérfræðinga.

Almar Guðmundsson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, segir að með frumvarpinu sé stigið mikilvægt skref í þá átt að marka skýran og einfaldan ramma utan um atvinnu- og dvalarleyfi erlends starfsfólks. „Það skiptir miklu fyrir samkeppnishæfni okkar að hingað komi starfsfólk sem eflir iðnaðinn í landinu. Við þurfum á þessu fólki að halda og eigum því að auðvelda fyrirtækjum að fá til sín öfluga starfsmenn sem geta lagt sitt af mörkum til að styrkja starfsemi íslenskra fyrirtækja. Við þurfum að horfast í augu við að landsmenn sjálfir eru ekki nægilega margir til að sinna öllum þeim störfum sem sinna þarf og oft á tíðum er um að ræða sérfræðiþekkingu sem verður að sækja til einstaklinga erlendis frá. En það má heldur ekki gleymast að við þurfum einnig á ófaglærðum starfskröftum að halda. Því er það ánægjulegt að góður skriður er kominn á að einfalda löggjöfina sem verður til þess að við eigum auðveldara með að laða til okkar erlenda starfsmenn.“