Fréttasafn1. okt. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

SI fagna nýju nýsköpunarfrumvarpi

Samtök iðnaðarins fagna nýju frumvarpi iðnaðar- og nýsköpunarráðherra um breytingar á opinberu stuðningsumhverfi nýsköpunar á Íslandi. Samtökin telja að breytingarnar séu tímabærar og muni styðja við markmið um að efla nýsköpun á öllum sviðum atvinnulífsins. 

Áformin eru í takti við þær breytingar sem hafa að undanförnu verið gerðar á hlutverki og stuðningi ríkisins við nýsköpun og er eðlilegt að endurskoða reglulega stuðningsumhverfið með það að markmiði að forgangsraða mikilvægustu verkefnunum. Með þeim er skerpt á hlutverki ríkisins og áhersla lögð á þau verkefni sem skila ábata og þörf er á aðkomu hins opinbera. Þá telja samtökin það jákvætt að rannsóknarverkefnum á sviði efnis-, líf- og orkutækni sé gert hærra undir höfði. 

Jafnframt fagna samtökin því að Byggingavettvanginum, samráðsvettvangi hagaðila í bygginga- og mannvirkjagerð, er í frumvarpinu falið að móta langtímaáætlun um fyrirkomulag rannsókna og þróunar í byggingariðnaði. Næstu ár verða tími breytinga í byggingaiðnaði og þörfin á bættum og vel skilgreindum áherslum í nýsköpun, rannsóknum og þróun í greininni hefur því aldrei verið meiri. Tækifærin eru fjölmörg og iðnaðurinn, opinberir aðilar og menntakerfið eiga að grípa þau með auknum áherslum á að efla frjóa hugsun og tækifæri sem liggja í tækninýjungum, sjálfvirknivæðingu og þróun efna. Binda Samtök iðnaðarins miklar vonir við að slík áætlun gæti aukið áhuga á nýsköpunarumhverfi í byggingaiðnaði sem mikil þörf er á.

Þá taka samtökin undir það sem fram kemur í frumvarpinu um mikilvægi fræðslu og gagnasöfnunar í bygginga- og mannvirkjagerð. Mikilvægt er að áfram verði haldið uppi öflugri fræðslu og upplýsingamiðlun fyrir iðnaðinn en í frumvarpinu er lagt til að þessi starfsemi færist yfir til Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Vonast samtökin til þess að hægt verði að efla útgáfu blaðanna.

Í frumvarpinu er einnig lögð sérstök áhersla á að settur verði á fót samkeppnissjóður um bygginga- og mannvirkjarannsóknir. Áherslur sjóðsins munu einkum snúa að samfélagslegum áskorunum í byggingariðnaði, svo sem rakaskemmdum í mannvirkjum og aðgerðum til lækkunar kolefnisspors.