SI fagna því að Hæstiréttur eyðir óvissu um búvörulög
Samtök iðnaðarins fagna því að Hæstiréttur hefur með nýföllnum dómi eytt réttaróvissu um búvörulög. En Hæstiréttur Íslands kvað í dag upp dóm í máli nr. 56/2024 er varðar hagræðingarákvæði í búvörulögum. Málið snýst um ákvæði laganna sem heimilar samstarf kjötvinnslustöðva um sameiginlega starfsemi til hagræðingar, en héraðsdómur hafði áður komist að þeirri niðurstöðu að lagasetningin hafi ekki uppfyllt stjórnskipulegan áskilnað um þrjár umræður á Alþingi.
Samkvæmt niðurstöðu Hæstaréttar, sem sneri niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur, hefur hagræðingarákvæði búvörulaga verið í fullu gildi frá samþykkt laganna á Alþingi þann 21. mars 2024.
Réttaróvissu vegna málsins hefur því verið eytt, en eftir að dómur héraðsdóms féll voru aðkallandi hagræðingaráform stöðvuð með tilheyrandi óvissu og tilkostnaði. Hafa lagaheimildir til hagræðingar því ekki enn komið til framkvæmda þrátt fyrir að teljast til gildandi laga nú í rúmt ár.
Í dómnum er málatilbúnaði Innnes gagnvart Samkeppniseftirlitinu hafnað og staðfest að hagræðingarákvæði búvörulaga hafi verið stjórnskipulega rétt sett. Þá er því hafnað að með lagasetningunni og undanþágum til handa innlendum framleiðendum hafi aðilum verið mismunað í andstöðu við 65. gr. stjórnarskrár Íslands.
Lykilskref fyrir samkeppnishæfni íslenskrar matvælaframleiðslu
Í niðurstöðunni felst staðfesting á lagagildi hagræðingarákvæða búvörulaga sem skapar skilyrði fyrir hagræðingu í kjötvinnslu og eykur svigrúm kjötvinnslustöðva til að starfa með hagkvæmari og markvissari hætti. Það er í takt við það sem tíðkast annars staðar í Evrópu, þar sem stjórnvöld hafa skapað skýran lagaramma fyrir samstarf fyrirtækja í landbúnaði og heimildir til hagkvæmrar framleiðslu afurða án þess að slíkt teljist ganga gegn samkeppnisreglum eða samkeppnishagsmunum.
Samtök iðnaðarins fagna því að Hæstiréttur hafi fallist á að skýr heimild sé til staðar fyrir samstarf kjötvinnslustöðva með hagræðingu að leiðarljósi. Slíkt fyrirkomulag stuðlar að aukinni hagkvæmni í rekstri, bættri nýtingu fjárfestinga og bætir stöðu íslenskrar matvælaframleiðslu gagnvart erlendum samkeppnisaðilum.
Samtök iðnaðarins telja brýnt að stjórnvöld tryggi áfram skýra og stöðuga löggjöf sem veitir fyrirsjáanleika og styður við hagkvæma og sjálfbæra matvælaframleiðslu á Íslandi.