Fréttasafn



11. okt. 2023 Almennar fréttir Efnahagsmál Starfsumhverfi

SI fagna því að ríkið skapi skilyrði fyrir auknum stöðugleika

Samtök iðnaðarins fagna því að ríkið skuli í frumvarpi til fjárlaga fyrir 2024 leggja sitt lóð á vogarskálarnar til að draga úr verðbólguþrýstingi í hagkerfinu og skapi þannig skilyrði fyrir lægri vöxtum og auknum stöðugleika. Þetta kemur fram í umsögn SI um fjárlagafrumvarpið sem send hefur verið til fjárlaganefndar Alþingis.

  • SI fagna áherslum sem fram koma í frumvarpinu á þætti sem styrkja framboðshlið hagkerfisins. Þannig efla stjórnvöld samkeppnishæfni Íslands og skapa forsendur fyrir framleiðnivexti sem skilar sér í auknum lífsgæðum landsmanna ásamt því að leggja grunn að lægri verðbólgu og vöxtum. Þetta er gert með umbótum í menntamálum og mannauðsmálum almennt, hvötum til fjárfestinga í nýsköpun, innviðauppbyggingu, og einföldu og skilvirku regluverki og starfsumhverfi fyrirtækja. Ásamt þessu þarf að tryggja aukið framboð af grænni orku til orkuskipta og uppbyggingar í iðnaði um land allt, fjölga þarf iðn-, tækni- og verkmenntuðu starfsfólki, greiða götu framkvæmda og setja kraft í innviðafjárfestingu, ekki síst í samgöngum, húsnæði og orkuskiptum.
  • SI fagna þeim áherslum á vöxt hugverkaiðnaðar sem fram koma í frumvarpinu en samtökin hafa bent á það um árabil að fjárfesting í nýsköpun er lykillinn að framleiðnivexti og framtíðarverðmætasköpun hagkerfisins. Auk þess mun nýsköpun, þ.e.a.s. fjárfesting í rannsóknum og þróun, eiga þátt í að leysa stórar samfélagslegar áskoranir, til að mynda í loftslagsmálum og heilbrigðisþjónustu til framtíðar.
  • Samtökin fagna þeim framlögum sem stendur til að verja í skattahvata vegna rannsókna og þróunar en leggja jafnframt ríka áherslu á að skattahvatarnir verði festir í sessi til framtíðar.
  • SI hvetja stjórnvöld til að greiða götu íbúðauppbyggingar. Ríkisstjórnin hefur á undanförnum árum gert margt af því sem í hennar valdi stendur til að einfalda uppbyggingu íbúðarhúsnæðis en öll spjót standa nú á sveitarfélögum sem fara með lóða- og skipulagsvald. Alþingi hlýtur að skerast í leikinn ef sveitarfélögin auka ekki lóðaframboð og haga áherslum í skipulagsmálum í þágu uppbyggingar í takt við þarfir landsmanna. Til að mæta markmiðum um fjölbreytta uppbyggingu þarf að auka vægi hlutdeildarlána enn frekar á sama tíma og stutt er við framboðshlið húsnæðismarkaðarins.
  • Samtökin ítreka mikilvægi þess að hækkun endurgreiðsluhlutfalls virðisaukaskatts,
  • vegna vinnu við uppbyggingu íbúðarhúsnæðis hækki aftur og þá helst upp í 100%.Með því móti er stutt við áframhaldandi uppbyggingu á íbúðarhúsnæði fyrir alla og byggt í takt við þarfir landsmanna.
  • SI ítreka mikilvægi þess að sú vinna sem nú á sér stað hjá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun við endurskoðun og þróun á stafrænu umhverfi greinarinnar sé fullfjármögnuð.
  • Samtökin lýsa yfir vonbrigðum þegar kemur að fjárveitingum inn í rannsóknarumhverfi mannvirkjagerðar m.a. í Ask-mannvirkjarannsóknarsjóð. Öflugar og samfelldar byggingarrannsóknir og eftirlit eru forsenda þess að hægt verði að mæta þeim fjölmörgu samfélagslegu áskorunum sem tengjast mannvirkjagerð.
  • SI leggur áherslu á nauðsyn aukinna nýfjárfestinga í samgönguinnviðum til að mæta þörfum atvinnulífs og samfélagsins í heild. Nauðsynlegt er í því tilliti að tryggja stöðuga uppbyggingu innviða sem byggð er á raunhæfum og fyrirsjáanlegum áætlunum í stað sveiflukenndrar uppbyggingar þar sem þjóðhagslegt mikilvægi er haft að leiðarljósi við forgangsröðun fjárfestinga.
  • SI hefur áhyggjur af ófullnægjandi viðhaldi samgönguinnviða, þá sérstaklega vegakerfisins. SI og FRV mátu uppsafnaða viðhaldsskuld vegakerfisins að fjárhæð 110 ma.kr. árið 2021. Frá því að það mat var gert hefur viðhald kerfisins ekki verið í takti við þörf upp á rúma 15 ma.kr. árlega. Miðað við frumvarpið er enn meiru bætt í þessa viðhaldsskuld árið 2024.
  • SI lýsa vonbrigðum með að í frumvarpinu sé ekki að finna aukningu í fjármagni til verknámsskóla sem þarf til að taka inn verk- og starfsnámsnemendur. SI hvetja stjórnvöld til þess að hraða uppbyggingu verknámsskóla út um allt land og flýta uppbyggingu á nýjum Tækniskóla. enda rímar það við helstu áherslur fjármálaáætlunar um nám í takti við þarfir samfélags og fjölgun útskrifaðra úr starfs- og tækninámi. SI hvetja stjórnvöld til þess að auka framlög í Vinnustaðanámssjóð, en við blasir að
  • framlög þyrftu að vera allt að 100% hærri en þau eru, ef miðað er við þá fjölgun sem orðið hefur á verk- og starfsnámsnemum.
  • SI fagnar áherslum frumvarpsins sem styðja við orkuskipti og uppbyggingu innviða en samtökin ítreka hins vegar mikilvægi þess að rjúfa áralanga kyrrstöðu í orkuöflun til að mæta raforkuþörf vegna orkuskipta og nýjum tækifærum í fjölbreyttum iðnaði. Orkuskipti verða ekki án aukins framboðs af raforku.
  • SI fagna áherslum um að stuðla að notkun nýrra orkukosta og bættri orkunýtni, s.s. vindorku á landi og á hafi sem og nýtingu glatvarma, og falla þessar áherslur vel að stefnu samtakanna í þessum málum.
  • SI telja mikilvægt að endurskoða aðgerðir í loftslagsmálum og forgangsraða fjármagni ríkisins í hvata til orkuskipta og tækniinnleiðingar til þess að ná markmiðum stjórnvalda. Mikilvægt er umhverfisgjöld skili sér aftur í aðgerðir á sviði umhverfis- og loftslagsmála, s.s. gjöld vegna ETS kerfisins og kolefnisgjöld.
  • Til að tryggja skilvirkni í orkuskiptum og ábyrga ráðstöfun á opinberu fjármagni ættu stjórnvöld jafnframt að leggja sérstaka áherslu á að stuðningur stjórnvalda taki einnig til orkuskipta í vöru- og fólksflutningsbifreiðum og vinnuvélum.
  • SI fagna áherslum á þá vegu að jafna dreifikostnað á raforku á landinu öllu, en telja að sama skapi ástæðu til að taka til skoðunar regluverk að baki gjaldskrám dreifiveitna, þ.e.a.s. hvernig kostnaður skiptist á milli þéttbýlis og dreifbýlis.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.


ViðskiptaMogginn / mbl.is, 11. október 2023.

VidskiptaMogginn-11-10-2023