Fréttasafn



11. maí 2021 Almennar fréttir Menntun

SI fagna því að starfsmenntaðir fái aðgang að háskólum

Samtök iðnaðarins fagna nýsamþykktu frumvarpi um breytingu á lögum um háskóla þar sem breyta á inntökuskilyrðum að háskóla fyrir nemendur sem vilja hefja nám til fyrstu háskólagráðu. Til jafns við aðgangsskilyrðið stúdentspróf kemur aðgangsskilyrði um að nemendur hafi staðist lokapróf frá framhaldsskóla á 3. hæfniþrepi og er þá vísað til aðalnámsskrár framhaldsskóla. Þessari breytingu er ætlað að jafna stöðu nemenda sem lokið hafa list-, tækni- og starfsnámi og þeirra sem lokið hafa stúdentsprófi til inngöngu í háskóla.

Það er mat Samtaka iðnaðarins að nú hafi það skref loks verið stigið að starfsnám teljist samkeppnishæft við bóknám en samtökin hafa barist fyrir því í mörg ár að staða nemenda með starfsnám og bóknám verði jöfnuð til inngöngu í háskóla.

Frumvarpið var samið á grundvelli tillagna í aðgerðaráætlun menntamálaráðherra til að auka áhuga ungmenna á starfs- og tæknimenntun sem unnin er í samstarfi við Samtök iðnaðarins og Samband íslenskra sveitarfélaga.

mbl.is, 11. maí 2021

Frettabladid.is, 11. maí 2021