Fréttasafn



10. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

SI fagna útgáfu OECD skýrslu en skoða þarf betur sumar tillögur

Samtök iðnaðarins fagna útgáfu skýrslu OECD enda eru þar að finna tillögur sem eru í takti við málflutning samtakanna síðustu misseri um umbætur í starfsumhverfi byggingariðnaðar þó ljóst sé að í skýrslunni eru einnig tillögur sem samtökin geta ekki fallist á og þarf að skoða betur. Samantekt skýrslunnar á íslensku er hægt að nálgast hér. Kynningarfundur fór auk þess fram um niðurstöðurnar sem hægt er að horfa á hér

Í skýrslu OECD er m.a. fjallað um löggiltar starfsgreinar. Kemur þar fram að taka ætti til skoðunar að draga úr reglubyrði fyrir smiði, rafvirkja, pípara, byggingarstjóra, löggilta hönnuði, arkitekta og verkfræðinga. Þá er lagt til að afnema löggildingu fyrir bakara og ljósmyndara. Í fréttatilkynningu sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sendi út í kjölfar fundarins fyrr í dag kemur eftirfarandi fram um framhald þeirrar vinnu: „Allar þessar tillögur verða nú rýndar. Hvað varðar til dæmis umgjörð um löggiltar starfsgreinar mun ég óska eftir því að starfandi starfshópur um endurskoðun á eftirlit með lögum um handiðnað fái þann þátt úttektarinnar til umsagnar og vinni tillögur að næstu skrefum þar sem samráð er tryggt með fulltrúum mismunandi hagaðila.“

Samtökin fagna því að starfshópurinn um endurskoðun á eftirliti með lögum um handiðnað fái það hlutverk að fjalla um úttekt OECD hvað varðar löggiltar starfsgreinar og vinna tillögur að næstu skrefum en samtökin eru með fulltrúa í hópnum. Fag- og meistarafélögin innan raða SI hafa tekið virkan þátt í vinnu starfshópsins, unnið góða heimavinnu og er reiðubúin að taka umræðu um mikilvægi löggiltra iðngreina á vettvangi nefndarinnar en  tilgangur þessa kerfis sem unnið er eftir er að ábyrgjast gæði og fagmennsku.