SI gagnrýna áform um löggjöf vegna vindorku
Samtök iðnaðarins hafa skilað inn umsögn um breytingu á lögum nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun vegna vindorku og verndarflokks áætlunarinnar. Samtökin lýsa yfir áhyggjum af áformunum. Áformin gera ráð fyrir að virkjunarkostir í vindorku verði meðhöndlaðir innan ramma laga nr. 48/2011 en þó með þeim hætti að settar verði almennar takmarkanir á hagnýtingu vindorku á svæðum með hátt verndargildi samkvæmt hlutlægum viðmiðum og vindorkukostir verði undanþegnir þeirri meginreglu laganna að verndar- og orkunýtingaráætlun sé bindandi gagnvart skipulagsvaldi sveitarfélaga.
Samkvæmt áformunum virðist sá möguleiki uppi að vindorkukostir fari í gegnum langt ferli rammaáætlunar til þess eins að sveitarfélög beiti neitunarvaldi sínu. Samtökin benda á í umsögninni að það sé grundvallaratriði í lögum nr. 48/2011 að verndar- og orkunýtingaráætlun sé bindandi við gerð skipulagsáætlana og sveitarstjórnir skuli samræma gildandi svæðis- aðal- og deiliskipulagsáætlanir að áætluninni innan fjögurra ára frá samþykkt hennar. Sé það ætlunin að færa sveitarfélögum ákvörðunarvald um uppbyggingu vindorkuvera sé rétt að undanskilja vindorkukosti gildissviði laga nr. 48/2011 í heild sinni.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI.

