SI gagnrýna skort á opnu ferli við þróun nemendagagnagrunns
Samtök iðnaðarins (SI) fagna áherslu stjórnvalda á stafræna umbreytingu í menntakerfinu, en gera í umsögn sinni alvarlegar athugasemdir við áform um þróun og rekstur miðlægs gagnagrunns nemendaupplýsinga. Samkvæmt frumvarpi verða hönnun og rekstur kerfisins alfarið í höndum opinberrar stofnunar án þess að boðið verði upp á opið samráð, útboð eða aðkomu einkaaðila.
Skortur á samkeppni og þátttöku nýsköpunarfyrirtækja
SI telja að fyrirhugað fyrirkomulag útiloki fyrirtæki í menntatækni og hugbúnaðarþróun frá því að bjóða fram lausnir sínar. Slíkt hafi íþyngjandi áhrif á nýsköpun og dragi úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja. Þá sé hætta á að opinbert fé sé ekki nýtt á sem hagkvæmastan hátt ef ekki sé tryggt að besta fáanlega lausn verði valin í gegnsæju ferli.
Rök frá nágrannaríkjum
Í umsögn SI eru nefnd dæmi frá Eistlandi, Svíþjóð, Noregi og Finnlandi þar sem miðlægir gagnagrunnar menntamála hafa verið þróaðir með virkri þátttöku einkaaðila. Í öllum tilvikum er stuðst við opin API-tengi og staðla sem gera fyrirtækjum kleift að þróa viðbótartól, greiningar og samþættar lausnir. Slíkt fyrirkomulag hefur stuðlað að aukinni nýsköpun, fjölbreyttum lausnum og betri nýtingu opinbers fjár.
Tillögur SI að úrbótum
Samtökin leggja eftirfarandi til í umsögninni:
- Opið útboðs- eða samráðsferli við þróun og innleiðingu gagnagrunnsins.
- Fyrirtækjum á markaði bjóðist tækifæri til að leggja fram tæknilausnir og samþættingar.
- Kerfið verði opið vistkerfi, t.d. með API-aðgangi, svo nýsköpunargeirinn geti þróað viðbótartól og þjónustu.
- Í framtíðarskipulagi verði horft til samstarfs við atvinnulífið í heild.
Kallað eftir gagnsæi og samstarfi
Að mati SI kallar sú fjárfesting sem um ræðir, sem metin á um 1,5 milljarða króna á tíu árum á gagnsæi, útgjaldastýringu og samstarf við einkaaðila. Samtökin hvetja stjórnvöld til að líta á menntatæknigeirann sem hluta af lausninni, til að auka gæði kerfisins, tryggja hagkvæmni og efla samkeppnishæfni íslensks iðnaðar.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI.