Fréttasafn20. nóv. 2020 Almennar fréttir Mannvirki

SI gera athugasemdir við aðalskipulag Reykjavíkurborg

Samtök iðnaðarins gera nokkrar athugasemdir við tillögur að breytingum á aðalskipulagi Reykjavíkurborgar í umsögn sem send hefur verið á umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar. Þar á meðal gera samtökin ákveðnar athugasemdir við það markmið að 25% nýrra íbúða verði á vegum húsnæðisfélaga sem ekki eru rekin í ágóðaskyni. Samtökin benda á að koma ætti til móts við verktaka sem ætla sér að ráðast í uppbyggingu á hagkvæmu húsnæði á almennum markaði með sama hætti og gert hefur verið fyrir óhagnaðardrifin leigufélög. Í umsögninni kemur fram að kannanir hafi sýnt að mikill minnihluti fólks vill búa varanlega í leiguhúsnæði. Ennfremur sé ljóst að stórum hluta íbúa á leigumarkaði reynist erfitt að safna fé til kaupa á fasteign. Að mati samtakanna sé því brýnt að tryggja lóðaframboð þar sem byggðar verði íbúðir sem ætlaðar eru til sölu á viðráðanlegu verði. Því ætti ekki eingöngu að einblína á uppbyggingu á vegum óhagnaðardrifinna leigufélaga heldur samhliða að greiða leið fyrirtækja á markaðnum til að byggja hagkvæmt húsnæði, m.a. sem falla undir skilyrði fyrir veitingu hlutdeilarlána.

Í umsögninni kemur einnig fram að samtökin telji brýnt að auka lóðaframboð, hraða afgreiðslu skipulags- og byggingarmála og veita hönnuðum og framkvæmdaraðilum svigrúm til nýsköpunar og umhverfisvænni uppbyggingar. Auk þess segir í umsögninni að á tímum óvissu vegna heimsfaraldurs og mikilli þörf á atvinnusköpun sé það mat samtakanna að nú séu kjöraðstæður til að ráðast í auknar fjárfestingar í samgöngumálum. 

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.