Fréttasafn



2. okt. 2018 Almennar fréttir Mannvirki

SI gera athugasemdir við útboð Landsbankans

Í Morgunblaðinu í dag er greint frá því að Samtök iðnaðarins hafi í tvígang ritað Landsbankanum bréf þar sem gerðar voru athugasemdir og kvartað var yfir því að Landsbankinn hefði ekki tilgreint niðurstöðu útboðs á verkfræðihönnun nýbyggingar Landsbankans á Austurbakka 6, reit 6. Agnes Bragadóttir, blaðamaður, ræðir við Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra SI, sem segir að það hljóti að vera hagsmunir Landsbankans að standa vel að þessum málum þar sem um er að ræða stóra og mikla framkvæmd en bygging Landsbankans verður 14.500 fermetrar ofanjarðar og um 2.000 fermetrar í kjallara auk bílakjallara. 

Landsbankinn ekki virt skyldur um framkvæmd útboða

Í  fréttinni kemur fram að sjö fyrirtækjum hafi verið boðið að taka þátt og á endanum hafi verið samið við tvö þeirra, annars vegar um heildarhönnun og hins vegar eftirlit og umsjón. Þá segir að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir annarra þátttakenda hafi Landsbankinn enn ekki virt skyldu sína skv. lögum um framkvæmd útboða að upplýsa bjóðendur um heildarupphæð þeirra tilboða sem bárust. Sigurður segir spurður hverja hann teldi vera skýringuna á þeirri leynd sem hvíli yfir niðurstöðum útboðsins: „Ég hef enga skýringu á því og skil reyndar ekki hvers vegna bankinn vill hafa þessa leynd yfir málinu. Það er alveg ljóst í okkar huga að þetta er útboð, ekki verðkönnun. Ég sendi bankanum bréf 18. júní og fékk svar við því þar sem bankinn hélt því fram að ekki hefði verið um útboð að ræða, heldur verðkönnun. SI sendi bankanum svo annað bréf, með ítrekun á kröfum um að bankinn veitti umbeðnar upplýsingar, en ekkert svar hefur borist við því bréfi.“

SI hafna því að um verðkönnun hafi verið að ræða en ekki útboð

Í Morgunblaðinu segir jafnframt að í fyrra bréfi Samtaka iðnaðarins segi að opna beri samtímis öll tilboð sem gerð séu á grundvelli sama útboðs og sé bjóðendum eða fulltrúum þeirra heimilt að vera viðstaddir opnun tilboða. Ljóst sé að þessa hafi ekki verið gætt við opnun tilboða í umræddu útboði Landsbankans. Tekið er orðrétt úr bréfinu: „Í því útboði sem um ræðir var hvorki upplýst um nöfn né heildarupphæð þeirra tilboða sem bárust né heldur var tilgreint hver kostnaðaráætlun verksins væri. Er umrædd upplýsingagjöf bæði lögákveðin en ekki síður liður í góðum útboðsháttum bjóðenda. SI telja mikilvægt að bæði opinberir aðilar og einkaaðilar gæti að lögum og góðum útboðsvenjum við framkvæmd útboða sinna. Beina SI því til Landsbankans að virða umrætt ákvæði og upplýsa bjóðendur um nöfn og heildarupphæð þeirra tilboða sem bárust auk kostnaðaráætlunar, liggi hún fyrir.“ 

Þá kemur fram í Morgunblaðinu að í svari Landsbankans segi að um verðkönnun hafi verið að ræða en ekki útboð og því eigi lög nr. 65/1993 um framkvæmd útboða ekki við í því tilfelli sem um ræðir. Bankanum beri því ekki að gera grein fyrir niðurstöðum. Þessu hafni SI og segi það ótvírætt að um útboð hafi verið að ræða. 

Morgunblaðið / mbl.is, 2. október 2018.

Morgunbladid-02-10-2018-landsbanki