SI hvetja stjórnvöld til að virkja kraft einkaaðila í stafrænni umbreytingu
Samtök iðnaðarins (SI) fagna markmiðum frumvarps til laga um aðgengi að vefsetrum og smáforritum opinberra aðila, sem ætlað er að tryggja jafnan aðgang allra að stafrænum lausnum hins opinbera. Í umsögn samtakanna, sem send var fjármála- og efnahagsráðuneytinu, er þó varað við því að skortur á samráði við atvinnulífið og óljós skipan ábyrgðar geti torveldað framkvæmd laganna og dregið úr nýsköpun á íslenskum markaði.
SI benda á að frumvarpið, sem innleiðir evrópsku vefaðgengistilskipunina (ESB 2016/2102), muni hafa bæði bein og óbein áhrif á fyrirtæki sem þróa, hanna og reka stafrænar lausnir fyrir opinbera aðila. Þrátt fyrir að löggjöfin beinist formlega að hinu opinbera, flyst ábyrgð á framkvæmdinni til einkaaðila sem sinna þessum verkefnum. Þeir þurfa að innleiða nýja staðla, uppfæra vefi og sýna fram á samræmi við evrópskar tæknikröfur sem getur haft í för með sér umtalsverðan kostnað — sérstaklega fyrir smærri fyrirtæki.
Samtökin telja að áhrifamati stjórnvalda sé áfátt að þessu leyti og vanmeti áhrif lagasetningarinnar á atvinnulífið. Í umsögninni kemur fram að það sé mikilvægt að stjórnvöld viðurkenni að innleiðingin leggur aukna ábyrgð og kostnað á fyrirtæki sem þjónusta hið opinbera. Samtökin telja að samráð við atvinnulífið hefði átt að fara fram fyrr í ferlinu.
SI benda einnig á að frumvarpið fjalli ekki um aðgengi fyrirtækja að opinberum gögnum og API-tengingum, sem séu forsenda fyrir gagnadrifinni nýsköpun og þróun nýrra lausna. Án þessarar stefnu geti stafræna umbreyting hins opinbera orðið „lokað vistkerfi þar sem ríkið þjónustar sjálft almenning, en atvinnulífið stendur fyrir utan,“ segir í umsögninni.
Þrátt fyrir gagnrýni leggja samtökin áherslu á að frumvarpið feli í sér jákvætt og nauðsynlegt skref til að tryggja jafnrétti í stafrænu aðgengi. Til að árangur náist þurfi þó að tryggja virkt samstarf við atvinnulífið, framkvæmd sem hvetji til heilbrigðrar samkeppni og skýra aðgreiningu á hlutverkum hins opinbera og markaðarins.
„Með markvissri samvinnu, opinni gagnastefnu og skýrum leikreglum má gera þessa löggjöf að hvata frekar en hindrun fyrir nýsköpun,“ segir í lokaorðum umsagnarinnar.
Hér er hægt að nálgast umsögn SI.

