Fréttasafn



30. okt. 2025 Almennar fréttir Starfsumhverfi

SI kalla eftir skilvirkara eftirliti í stefnu í neytendamálum

Samtök iðnaðarins (SI) hafa skilað umsögn um tillögu til þingsályktunar um stefnu í neytendamálum til ársins 2030. SI fagna því að unnið sé að heildstæðri stefnu í málaflokknum þar sem lögð er m.a. áhersla á aukna neytendavernd með endurskoðun regluverks. Samtökin leggja ríka áherslu á samráð við atvinnulíf og kalla eftir skilvirkara eftirliti vegna starfsemi þar sem réttindalausir ganga inn á svið lögverndaðra iðngreina.

Þörf á endurskoðun löggjafar um handiðnað

Í umsögninni vekja SI athygli á brotalöm í eftirliti með aðilum sem veita þjónustu á grundvelli laga um handiðnað án tilskilinna réttinda. Undanfarin ár hefur slík starfsemi fengið að viðgangast óáreitt sem hefur haft í för með sér bæði líkamlegt og fjárhagslegt tjóni fyrir neytendur. Samtökin leggja áherslu á að neytendur verði að geta treyst því að þjónusta sé veitt af aðilum með viðeigandi sérfræðiþekkingu og hæfni sem uppfylla öryggis- og gæðakröfur. SI leggja til að eftirlit með löggiltum iðngreinum verði fært frá lögreglu til stofnana á borð við Neytendastofu, Heilbrigðiseftirlitsins og Húsnæðis- og mannvirkjastofnun til að auka skilvirkni.

Mikilvægi samráðs við atvinnulíf

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á að útfærsla stefnunnar verði unnin í nánu samstarfi við hagaðila, með það að markmiði að efla traust, fagmennsku og gæði í viðskiptum. Öflugt samráð stjórnvalda við atvinnulífið skiptir íslensk iðnfyrirtæki miklu máli og stuðlar að fyrirsjáanleika og skilvirkari laga- og reglugerðasetningu. Í því samhengi styðja samtökin sérstaklega fyrirhugaðar aðgerðir í 9. lið áætlunarinnar þar sem stjórnvöld lýsa yfir stuðningi við rannsóknir, upplýsingagjöf og fræðslu til að auka neytendavitund. Samtökin benda þó á mikilvægi þess að rannsóknir séu unnar í samráði við atvinnulífið og er slík vinna þegar hafin til að mynda í mannvirkjagerð. Atvinnulífið sé órjúfanlegur hluti af slíkri vinnu og ekki síður fyrir eftirfylgni í framkvæmd.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI.