Fréttasafn20. des. 2017 Almennar fréttir

SI kalla eftir stöðugleika í umsögn um fjárlagafrumvarpið

Í umsögn Samtaka iðnaðarins um fjárlög fyrir árið 2018 sem sent hefur verið á fjárlaganefnd kemur meðal annars fram að stjórn opinberra fjármála ásamt stjórn peningamála og aðilar vinnumarkaðarins þurfi að vera samhent í því að skapa stöðug starfsskilyrði fyrir fyrirtæki hér á landi. Með því megi auka verðmætasköpun þjóðarbúsins og hagsæld samfélagsins sem skapar grundvöll að lífskjarabótum hér á landi. Áhersla ríkisstjórnarinnar á stöðugleika og samkeppnishæfni í nýjum stjórnarsáttmála er jákvæð að mati SI og eru samtökin reiðubúin að leggja sitt af mörkum til þess að vinna að umbótum á þessum sviðum í íslensku samfélagi.

Mikilvægt að gengið sé í takt með það að markmiði að skapa stöðugleika

Í umsögninni kemur jafnframt fram að miðað við frumvarp til fjárlaga fyrir næsta ár dregur nokkuð úr aðhaldi í ríkisfjármálum milli áranna 2017 og 2018. Heildarjöfnuður er samkvæmt fjárlagafrumvarpi 1,3% af landsframleiðslu eða 35 ma.kr. Er það nokkuð minni afgangur en á árinu 2017 þegar hann er áætlaður um 2,0% af landsframleiðslu. Sveifluleiðréttur frumjöfnuður ríkissjóðs, þar sem búið er að taka tillit til hagsveiflunnar, er einnig að minnka á milli ára 2017 og 2018 samkvæmt fjárlagafrumvarpinu og aðhaldið í ríkisfjármálum því að minnka. Í umsögninni segir að mikilvægt sé að ríki, Seðlabankinn og vinnumarkaðurinn gangi í takt með það að markmiði að skapa skilyrði aukins og víðtæks stöðugleika. Með því verði varin sú mikla kaupmáttaraukning ráðstöfunartekna sem náðst hefur á síðustu árum til hagsbóta fyrir heimilin í landinu.

Hvernig tekst til í þessum efnum veltur mikið á hvernig tekst til með kjarasamninga á næstu misserum en áhersla SI hefur verið á að láta gjaldeyrisskapandi greinar vera leiðandi í launamynduninni en ekki hið opinbera þ.m.t. ríkið. Í þessu sambandi fagna SI þeirri áherslu ríkisstjórnarinnar að leggja mikla áherslu á að fá aðila vinnumarkaðarins til samstarfs um framtíðarskipulag kjaraviðræðna. Peningastjórnun þarf í þessu sambandi að vera framsýn en ef fram fer sem horfir mun að mati SI á næstunni draga talsvert úr þörfinni fyrir aðhald í peningamálum. Hið opinbera virðist þó taka það svigrúm til sín með auknum útgjöldum í stað aðhalds eða fjárfestinga.

Auk ofangreinds kemur neðangreint meðal annars fram í umsögn SI:

  • Aukin ríkisútgjöld fylla upp í það svigrúm sem ella væri til staðar til að lækka vexti.
  • Mikilvægt að halda áfram að greiða niður skuldir og lækka vaxtagreiðslur.
  • Forgangsröðun í þágu innviða. Ný ríkisstjórn þarf að móta heildstæða stefnu um uppbyggingu innviða – innviðastefnu – enda eykst þá yfirsýn og skilvirkni á þessu sviði. Aukning til vegamála ánægjuleg en of lítil.
  • Mikilvægt að lækka tryggingagjaldið í samræmi við þau loforð sem stjórnvöld gáfu 2016.
  • Hækkun á olíugjaldi, kolefnisgjaldi og áfengisgjaldi er mótmælt.
  • Samtökin fagna áherslu á nýsköpun og rannsóknir og þróun. Samtökin árétta mikilvægi þess að þök á endurgreiðslur vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar verði afnumin á vorþingi 2018.

Hér er hægt að lesa umsögnina í heild sinni.