Fréttasafn



11. maí 2020 Almennar fréttir

SI koma til móts við félagsmenn í efnahagsþrengingunum

Eftirfarandi tilkynning hefur verið send á félagsmenn SI:

Kólnun íslensks efnahagslífs var staðreynd í byrjun þessa árs og efnahagsleg óveðursský voru yfir Íslandi áður en heimsfaraldur kórónaveiru skók hagkerfi heimsins þar sem Ísland er ekki undanskilið. Iðnfyrirtæki hafa ekki farið varhluta af ástandinu.

Frá áramótum hefur stjórn SI fjallað um leiðir til að koma til móts við félagsmenn í þessum miklu efnahagsþrengingum. Stjórn SI hefur nú ákveðið að veita afslátt af félagsgjöldum á árinu 2020 og leggja þannig sitt af mörkum. Er þetta einskiptisaðgerð með hliðsjón af fordæmalausum efnahagsaðstæðum vegna heimsfaraldurs kórónuveirunnar.

Næstu þrjá gjalddaga, maí, júlí og september, verður veittur þriðjungsafsláttur í hvert sinn og samsvarar það 16,7% afslætti á félagsgjöldum yfir árið. Þá hefur eindaga verið frestað til 1. júní vegna gjalddaga í mars.

Í könnun meðal félagsmanna kemur fram að yfir helmingur gerir ráð fyrir tekjusamdrætti á næstu ársfjórðungum og að 70% svarenda búast við að finna fyrir neikvæðum áhrifum vegna COVID-19. Þess vegna var ákveðið að veita afslátt af fleiri en einum gjalddaga félagsgjaldanna. Með þessu vilja Samtök iðnaðarins sýna stuðning sinn við íslensk iðnfyrirtæki í verki.