Fréttasafn



30. maí 2022 Almennar fréttir Starfsumhverfi

SI leggja áherslu á leið vaxtar í umsögn um fjármálaáætlun

Á fundi fjárlaganefndar Alþingis í morgun var til umræðu umsögn Samtaka iðnaðarins um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun fyrir árin 2023-2027. Fyrir hönd SI mættu á fundinn Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri SI, og Ingólfur Bender, aðalhagfræðingur SI.

Í umsögn SI kemur fram að samtökin vilja að farin sé leið vaxtar til að tryggja sjálfbærni í ríkisrekstrinum. Þetta merkir að það þarf hagvöxt og að styrkja eigi framboðshlið hagkerfisins með umbótum á sviði nýsköpunar, innviða, menntunar, orku og umhverfismála og öðru er varðar starfsumhverfi fyrirtækja.

Haldið verði áfram á sömu braut að efla nýsköpun

Í umsögn SI kemur fram að samtökin fagni því að áframhaldandi áhersla sé lögð á eflingu nýsköpunar með öflugri umgjörð og skattahvötum. Það hafi nú þegar skilað sér í vexti útflutnings á sviði hugverkaiðnaðar og bendi allt til að sá vöxtur haldi áfram, ef rétt verði á málum haldið. Fjárfesting í nýsköpun muni skila sér í fjölgun starfa, auknum fjárfestingum og fjölbreyttara hagkerfi. SI leggja ríka áherslu á stöðugleika í stuðningsumhverfi fyrir nýsköpun og að haldið verði áfram á sömu braut og undanfarin tvö ár.

Móta verður nýja húsnæðisstefnu

Í umsögn SI kemur einnig fram að samtökin fagni þeirri stefnu stjórnvalda að mótuð verði ný húsnæðisstefna fyrir Ísland. Nauðsynlegt sé að ráðast í aðgerðir til að ná fram stöðugri húsnæðisuppbyggingu sem mætir þörfum hverju sinni. Núverandi framboðsskortur íbúða undirstriki mikilvægi þess að mótuð verði ný húsnæðisstefna með aðkomu sveitarfélaga, aðilum vinnumarkaðarins og ríkissjóði.

Mikilvægt að lækka tryggingagjaldið og endurskoða fasteignaskatta

Í umsögninni kemur fram að það sé mat SI að mikilvægt sé að lækka tryggingagjaldið nú þegar verkefni hagstjórnar sé að efla samkeppnishæfni atvinnulífsins og auka framtíðarhagvöxt. Telja samtökin einnig mikilvægt að fyrirkomulag fasteignaskatta sé endurskoðað með það að markmiði að minnka álögur á fyrirtæki og auka stöðugleika við innheimtu gjaldanna. 

Fagna einföldun regluverks og verkferla

SI fagna þeirri áherslu sem birtist í fjármálaáætluninni að einfalda regluverk og verkferla í þágu atvinnulífs. Samtökin leggja á það áherslu að áfram sé rík áhersla á umbætur í íslensku regluverki til einföldunar auk þess sem tryggt sé að allir á markaði fari eftir þeim reglum.

Fjármunum forgangasraðað í starfs- og tækninám

Þá kemur fram í umsögn SI að mikilvægt sé að fjármunum verði raunverulega forgangsraðað til starfs- og tæknináms og benda samtökin á að það er dýrara nám en hefðbundið bóknám en fullkomlega í takti við þarfir atvinnulífsins. SI telja mikilvægt að hækka talsvert framlög í vinnustaðanámssjóð til að unnt verði að fjölga útskrifuðum úr starfs- og tækninámi. SI telja einnig mikilvægt að endurskoða reglur um fjárveitingu til háskóla með það i huga að fjárhagslegir hvatar verði nýttir til að auka hlutfall brautskráðra í STEM-fögum.

Hér er hægt að nálgast umsögn SI um fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar.