Fréttasafn



24. mar. 2020 Almennar fréttir Efnahagsmál Iðnaður og hugverk Mannvirki Nýsköpun Starfsumhverfi

SI leggja til ýmis atriði til að styrkja aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Samtök iðnaðarins fagna þeim aðgerðum sem felast í aðgerðaráætlun ríkisstjórnarinnar og telja jafnframt jákvætt að sjá að ríkisstjórn, Seðlabanki Íslands, lánveitendur og aðilar vinnumarkaðarins ganga í takt að sameiginlegu markmiði við erfiðar aðstæður. Þetta kemur fram í umsögn SI um frumvörp um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldursins, mál nr. 683 og 695, sem send var fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd í gærkvöldi. Samtökin benda þó á ýmis atriði sem væru að mati samtakanna til þess fallinn að styrkja aðgerðirnar enn frekar og auka líkur á öflugri viðspyrnu fyrir íslenskt efnahags- og atvinnulíf til skemmri og lengri tíma. 

Heimild til lengri fresta og lækkun gjalda og skatta

Í umsögninni kemur fram að í nýlegri könnun SI búist 55% iðnfyrirtækja við lausafjárerfiðleikum á næstunni en meðal fyrirtækja í framleiðsluiðnaði sé hlutfallið enn hærra eða 70%. Þetta sé mikið áhyggjuefni í ljósi þess að iðnaður skapi eitt af hverjum fimm störfum á Íslandi og fimmtung landsframleiðslunnar. Þá segir í umsögninni að dragist efnahagssamdráttur á langinn sé mikilvægt að fyrirtæki landsins hafi heimild til lengri fresta til að standa skil á sköttum og opinberum gjöldum en nú sé tilgreint í frumvarpinu. Sama eigi við um endurgreiðslu brúarlána. Stöðugt endurmat þurfi á stöðunni og veita eigi heimild til lengri fresta ef samdráttur dregst á langinn. Tryggja þurfi að ekki muni bíða fyrirtækjanna uppsafnaður skafl vegna frestunar opinberra gjalda og greiðslna brúarlána þegar að viðspyrnu kemur. Í þessu sambandi sé mikilvægt að ekki sé einungis um frestun opinberra gjalda og skatta að ræða heldur einnig lækkun, eigi það ekki síst við um tryggingagjaldið. 

Útvíkka heimild til endurgreiðslu í „Allir vinna“

Í umsögninni segir að samtökin fagni tillögum ríkisstjórnarinnar um að hækka endurgreiðslu virðisaukaskatts úr 60% upp í 100% í anda „Allir vinna“ átaksins. Samtökin leggja áherslu á mikilvægi þess að úrræðið sé eins viðtækt og hægt er þegar kemur að aðkomu allra í virðiskeðjunni þ.e. frá hönnun til afhendingar. Fagna samtökin því að vinna hönnuða við viðhaldsframkvæmdir falli undir ákvæðið. Sökum hraðra tækniframfara og breyttra framleiðsluaðferða sé æskilegt að endurskoða og útvíkka frekar heimildina til endurgreiðslu með það að leiðarljósi að hægt væri að vinna frekari vinnu á verkstæði og fá endurgreiðslu af sama sniði, t.d. má þar nefna sérframleiðslu innréttinga og einingaframleiðslu. Enn fremur leggja samtökin til að tillagan nái til sveitarfélaga vegna innviðaframkvæmda, þannig sé hvatt til fjárfestinga á þessu ári og störf varin. 

30-35 ma.kr. viðbótarframkvæmdir í samgöngum og byggingum

Jafnframt kemur fram í umsögninni að samtökin fagni áformum um auknar opinberar fjárfestingar. Um nokkurt skeið hafi verið ljóst að hið opinbera þurfi að auka fjárfestingar sínar með hliðsjón af stöðu efnahagsmála, í þeim tilgangi að örva eftirspurn. Þá hafi ítrekað verið bent á að ástand innviða sé víða bágborið og þörf á umtalsverðum fjárfestingum í innviðum landsins. Sú þörf hafi verið áætluð 372 milljarðar króna í skýrslu um ástand og framtíðarhorfur innviða sem kom út árið 2017 á vegum SI og Félags ráðgjafarverkfræðinga. Í ljósi þessa vilja SI fara fram á að ráðist verði í 30-35 ma.kr. viðbótarframkvæmdir í samgöngum og byggingum. Að mati SI kalla aðstæður á að farið sé í a.m.k. 30-35 ma.kr. viðbótaframkvæmdir í ár umfram það sem ríkissjóður er þegar með áætlað í samgönguinnviðum og byggingum hins opinbera. Mikilvægt er að undirbúningur slíkra framkvæmda sé skilvirkur og jafnframt þess gætt að verkefnum sé útvistað til íslenskra fyrirtækja. Sveigjanleiki í útboðsferli skipti hér sköpum. Þá segir í umsögninni að nýta eigi samvinnuleiðina en samvinnuverkefni um vegaframkvæmdir í samræmi við framkomið frumvarp samgönguráðherra færi verkefni framar í tíma. Umfangsmiklar framkvæmdir sem skapi mikinn fjölda ársverka bæði hjá verktökum en ekki siður hjá ráðgjöfum og hönnuðum. Áætla megi að í heild verði til á bilinu 3.000-4.000 ársverk vegna þessa. Samtökin hvetja til þess að frumvarp þess efnis verði að lögum sem fyrst svo hægt sé að leggja grunn að framkvæmdum.

Koma á hlutdeildarlánum sem allra fyrst og auka fjárveitingu til stofnframlaga

Þá kemur fram í umsögninni að á þessum tímum þurfi að leita allra leiða til að viðhalda stöðugri uppbyggingu til að mæta grundvallar þörf samfélagsins til næstu ára. Þar segir að í ljósi þess að mikill samdráttur verði á nýrri íbúðarfjárfestingu bendi samtökin á að nauðsynlegt sé að fara hratt af stað með nauðsynlega uppbyggingu, m.a. með því að koma á hlutdeildarlánum sem allra fyrst og auka fjárveitingar til svokallaðra stofnframlaga. Tryggja þurfi fjármagn til þessara verkefna á þessu ári að því gefnu að frumvarp um hlutdeildarlán verði samþykkt. 

Tryggja fjármagn í sameiginlegt markaðsátak í þágu innlendrar framleiðslu og þjónustu

Í umsögninni kemur fram að SI leggja til að stjórnvöld og aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman og efni til markaðsátaks í þágu innlendrar framleiðslu og þjónustu í breiðri merkingu þar sem horft væri til ólíkra greina og að tryggt verði fjármagn til verkefnisins í fjáraukalögum. Samtökin benda á að Samtök atvinnulífsins, Samtök iðnaðarins, Samtök verslunar og þjónustu og Bændasamtökin hafi staðið að slíku átaki undir merkjum Íslenskt - gjörið svo vel. Hægt væri að nýta það verkefni til að hvetja landsmenn til kaupa á innlendri framleiðslu og þjónustu og skipta við innlenda verslun sem verður til þess að skapa störf og verðmæti.

Endurgreiðslur vegna kvikmyndaframleiðslu verði auknar

Í umsögninni segir að um langt skeið hafi ríkissjóður endurgreitt hlutfall af framleiðslukostnaði vegna framleiðslu kvikmynda og sjónvarpsefnis. Þetta fyrirkomulag hafi gefið góða raun, skapað fjölmörg störf og verðmæti bæði beint en ekki síður óbeint. Þar segir að samkvæmt nýjustu könnun Ferðamálastofu segjast tæp 40% ferðamanna hafa tekið ákvörðun um Íslandsferð eftir að hafa séð íslenskt landslag í hreyfimyndefni. Samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2020 (án fjáraukalaga) sé tæpum 700 m.kr. ráðstafað í endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar en miðað við útgefin vilyrði um endurgreiðslur fyrir árið 2019 þyrfti fjárheimildin að nema samtals um 1,5-2 milljörðum króna á þessu ári. Þetta geri það að verkum að innlendir og erlendir framleiðendur haldi að sér höndum og ráðist síður í ný verkefni. Samtökin hvetja til þess að fjárframlög verði aukin enda skili það auknum umsvifum á þessu ári með tilheyrandi jákvæðum áhrifum á efnahagslífið.

Hækkun framlaga í Tækniþróunarsjóð um 3 milljarða króna á árinu

Í umsögninni leggja SI til að framlög í Tækniþróunarsjóð (TÞS) verði aukin um allt að 3 milljarða króna á þessu ári með það að markmiði að fjölga störfum í nýsköpun og hátækni. Þar segir að einungis 27% verkefna með hæstu einkunn hafi hlotið styrk við síðustu úthlutun sem bendi til ónýttra tækifæra. 

Hækka þak á endurgreiðslu vegna rannsókna- og þróunarkostnaðar

Að lokum kemur fram í umsögninni að nýleg úttekt og könnun SI meðal félagsmanna sem hafi nýtt sér heimildir til skattfrádráttar/endurgreiðslu á rannsókna- og þróunarkostnaði bendi til þess að fyrirtæki hafi almennt aukið umsvif, fjölgað verkefnum og ráðið í ný stöðugildi vegna hækkunar þaks úr 300 m.kr. í 600 m.kr. en sú lagabreyting hafi tekið gildi í janúar 2019. Samtökin hvetja því stjórnvöld og Alþingi til að hækka þakið enn frekar en það muni hafa jákvæð áhrif á atvinnuuppbyggingu og nýsköpun og þar með verðmætasköpun í hagkerfinu. 

Hér er hægt að nálgast umsögn SI í heild sinni.