Fréttasafn



6. maí 2019 Almennar fréttir Efnahagsmál Orka og umhverfi

SI mæla með samþykkt þriðja orkupakkans

Um nokkurt skeið hefur verið fjallað um þriðja orkupakkann svokallaða sem felur í sér virkari samkeppni á raforkumarkaði, orkuöryggi, neytendavernd og kröfur um eftirlit. Í raun eru fjögur mál til umfjöllunar á Alþingi vegna þessa og hafa Samtök iðnaðarins sent atvinnuveganefnd og utanríkismálanefnd sameiginlega umsögn um þessi fjögur mál.

Samtök iðnaðarins (SI) mæla með því að þriðji orkupakkinn verði samþykktur hér á landi en gera þó athugasemd hvað varðar sjálfstæði Orkustofnunar sem eftirlitsaðila með sérleyfishluta raforkumarkaðarins sem samtökin telja ekki samræmast að fullu þeim kröfum sem gerðar eru til eftirlitsaðila samkvæmt raforkutilskipun 2009/73/EB.

Felur ekki í sér nýmæli hér á landi

SI benda á að ákvæði orkupakkans sem taka til hérlendra aðstæðna eru viðbætur við þau ákvæði sem þegar gilda samkvæmt fyrra regluverki og kennt er við orkupakka ESB. Því er ekki um að ræða nýmæli heldur eingöngu verið að skerpa á þeim reglum sem þegar gilda, þ.m.t. kröfum um eftirlit, neytendavernd, orkuöryggi og virkari samkeppni. Ákvörðun um markaðsvæðingu raforku var tekin við innleiðingu fyrsta orkupakkans og felur þriðji orkupakkinn því ekki í sér nein nýmæli þar að lútandi.

Í umsögninni er bent á að starfsemi á vettvangi ACER tekur ekki til Íslands þar sem landið er ekki tengt orkukerfum annarra ríkja með sæstreng (sjá umfjöllun hér fyrir neðan um sæstreng). Þá telja SI að þriðji orkupakkinn leggi ekki til frekari kröfur en nú þegar gilda samkvæmt fyrri orkupökkum.

Mikill ávinningur af EES-samningnum

EES-samningurinn hefur á síðasta aldarfjórðungi átt ríkan þátt í aukinni hagsæld þjóðarinnar og búið bæði atvinnulífi og almenningi traustara réttarumhverfi. Það eru því ríkir hagsmunir að EES-samningurinn verði áfram sá grunnur sem Ísland byggir samskipti sín við Evrópusambandið á og tryggi þ.m.t. greiðari aðgang íslenskra fyrirtækja að stærri markaði en ella. Þar undir undir fellur einnig að íslenskar útflutningsvörur, s.s. raf- og rafeindatæki, eldsneyti og hugvit á því sviði, eru undirsettar kröfum sem m.a. kveðið er á um í IV. viðauka EES-samningsins og því verulegt hagsmunamál fyrir þjóðarbúið að þeim útflutningi verði ekki raskað.

Ávinningurinn af þátttöku Íslands í samstarfi á vettvangi EES-samningsins er ótvíræður og sú verðmæti sem af samstarfinu hljótast auka lífskjör á Íslandi fyrir alla landsmenn. SI telja engin efnisleg rök standa til þess að hérlend starfsemi og hagsmunir sem grundvallast á því hagræði sem EES-samningurinn felur í sér sé sett í uppnám vegna þessa máls.

Eftirlit á raforkumarkaði verði fullnægjandi

Málið felur í sér auknar eftirlitsheimildir til Orkustofnunar. SI hafa lagt á það ríka áherslu að hér á landi sé skilvirkt eftirlit með raforkumarkaði, bæði með samkeppnis- og sérleyfisstarfsemi þess markaðar. Að mati SI er mikilvægt að stuðla að enn skýrara eftirliti með raforkufyrirtækjum, sem eru að mestu leyti í opinberri eigu, en samtökin telja að eftirlit með þessum þáttum sé enn ekki fullnægjandi. Því fagna SI í umsögninni auknum kröfum til eftirlits með sérleyfisfyrirtækjum sem starfa í skjóli einokunar á sínu sviði.

Sæstrengur samræmist ekki stefnu SI

Raforkustefna samtakanna, frá árinu 2016, felur í sér skýra áherslu á að raforka framleidd á Íslandi skuli nýtt til verðmætasköpunar innanlands enda sé öflugur iðnaður undirstaða búsetu og verðmætasköpunar. Þó svo að þriðji orkupakkinn hafi ekki með lagningu sæstrengs að gera þá ítrekast almennt að slík framkvæmd samræmist ekki raforkustefnu SI eða hagsmunum aðildarfyrirtækja samtakanna. Telja SI því jákvætt að ríkisstjórnin hafi samþykkt að draga til baka umsókn um sæstrengsverkefnið IceLink inn á fjórða PCI-listann (e. Projects of Common Interest) eins og fram kemur í frétt inni á heimasíðu atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, dags. 22. mars sl.

Stjórnvöld leggja til þá breytingu, samhliða þriðja orkupakkanum, að ekki verði ráðist í tengingu raforkukerfi landsins við raforkukerfi annars lands í gegnum sæstreng nema að undangengnu samþykki Alþingis. Skal það samþykki liggja fyrir áður en framkvæmdir sem varða slíka tengingu geta farið á framkvæmdaáætlun kerfisáætlunar. Til grundvallar slíkri ákvörðun Alþingis skal liggja heildstætt mat á umhverfis-, samfélags-, og efnahagslegum áhrifum slíkrar tengingar.

Í umsögninni er áréttað að þriðji orkupakkinn felur ekki í sér kvöð á íslenska ríkið til þess að leggja hér sæstreng með raforku. Taka samtökin alfarið undir þau sjónarmið að slík framkvæmd er eingöngu og alfarið háð samþykki hérlendra stjórnvalda. Að gefnu tilefni benda samtökin á að mikilvægt er að setja Landsvirkjun boðaða eigendastefnu þar sem tekið væri m.a. á álitamálum hvað varðar sæstreng.

Með hliðsjón af ofangreindu samrýmist samþykkt þriðja orkupakkans og tengdra mála raforkustefnu SI.

Vetrarpakkinn og sérstaða Íslands

Loks benda SI á að fjórði orkupakkinn, öðru nafni „vetrarpakkinn“ er nú þegar til umfjöllunar á vettvangi ESB. Ólíkt þriðja orkupakkanum felur vetrarpakkinn í sér ýmis nýmæli með breiðari skírskotun til umhverfis- og orkunýtnimála, s.s. orkunýtni bygginga. Að mati SI er brýnt að stjórnvöld haldi á lofti sérstöðu Íslands, sér í lagi varðandi endurnýjanlega orkugjafa og þarf sú hagsmunagæsla að hefjast nú þegar. Sú staða haggar ekki stuðningi SI við þriðja orkupakkann.

Hér er hægt að nálgast umsögnina í heild sinni.

Hér er hægt að nálgast yfirferð yfir helstu atriði umsagnar SI