Fréttasafn



23. apr. 2025 Almennar fréttir Mannvirki Samtök arkitektastofa

SI meðal bakhjarla Feneyjartvíæringsins í arkitektúr

Hraunmyndanir (e. Lavaforming) er framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum í arkitektúr 2025. Sýningin stendur yfir frá 10. maí til 23. nóvember næstkomandi. Arkitektinn Arnhildur Pálmadóttir er stofnandi og listrænn stjórnandi Hraunmyndana. Í sýningarteyminu eru auk Arnhildar, Arnar Skarphéðinsson, Björg Skarphéðinsdóttir, Sukanya Mukherjee, Jack Armitage og Andri Snær Magnason. Um grafíska hönnun sér hönnunarstofan Studio Studio og Markús Þór Andrésson, deildarstjóri sýninga og miðlunar hjá Listasafni Reykjavíkur, er ráðgjafi sýningarinnar. Miðstöð hönnunar og arkitektúrs hefur umsjón með framkvæmd verkefnisins. Samtök iðnaðarins eru meðal bakhjarla ásamt Listaháskóla Íslands, Íslandsstofu, Arkitektafélagi Íslands, Félagi íslenskra landslagsarkitekta, Félagi húsgagna- og innanhússarkitekta, Listasafni Reykjavíkur og menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu. 

Á vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs kemur fram að sýningarteymi Feneyjatvíæringsins komi frá s. ap arkitektum sem sé þverfagleg rannsóknarstofa með áherslu á tilgátuverkefni framtíðarinnar og þverfaglegra samstarfsaðila. Á sýningunni Lavaforming sé sögð saga framtíðarsamfélags sem þrói framsæknar lausnir í mannvirkjagerð. Hraunrennsli sé beislað, nýtt sem byggingarefni og takist með því að umbreyta staðbundinni ógn í auðlind.

Frekari upplýsingar um Feneyjartvíæringinn í arkitektúr er hægt að nálgast á  vef Miðstöðvar hönnunar og arkitektúrs og á vef Stjórnarráðsins.